Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Arfgeng heilablæðing – Meingerð sjúkdóms og meðferð

Höfundar:
Ásbjörg Ósk Snorradóttir, Hjalti Karl Hafsteinsson, Ástríður Pálsdóttir, Hákon Hákonarson

Inngangur
Arfgeng heilablæðing er alíslenskur erfðasjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu í cystatin C geninu. Stökkbreytingin veldur því að cystatin C próteinið hefur tilhneigingu til að mynda tvenndir, sem fellur út í slagæðum heilans. Útfellinging getur valdið heilablæðingum í arfberum og dauða. Útfelling á cystatin C próteininu sést einnig í öðrum vefjum líkamans, eins og t.d í húð. Í rúm 300 ár hafði stökkbreytining engin áhrif á lífslíkur arfbera en á 19. öld byrjar meðalævilengd arfbera að styttast og er komin niður í 30 ár. Áætla má því að breyting á lifnaðarháttum arfbera gæti tengst þessari styttingu á ævilengd. Nýlega var arfberum boðin möguleg meðferð sem byggist á inntöku á N-acetylcystein til þess að auka magn glútathíons í arfberum.

Efniviður og aðferðir
Krufningssýni úr heila sjúklinga sem létust úr arfgengri heilablæðingu og viðmiðum voru mótefnalituð með mótefnum, til að greina frumur, virkjun fruma og utanfrumuefni. Einnig var skoðuð húð frá 20 arfberum og viðmiðum og litað fyrir sömu mótefnum.

Niðurstöður
Í heilaæðum sjúklinga og í húð sést mikil þykknun á grunnhimnu vegna kollagen IV og fibronectin uppsöfnunar, þar sem útfelling cystatin C sést fyrst. Einnig sáust fíbróblasta/mýófíbróblastafrumur sem framleiða utanfrumuprótein. Sömu frumur voru einnig jákvæðar fyrir Smad 2/3 og WNT-1.

Ályktanir
Þykknun grunnhimnu spilar stórt hlutverk í meingerð sjúkdóms, og gæti mögulega leitt til útfellingar á cystatin C. Lágt glútathíon getur valdið því að TGF-ß/Smad 2/3 og WNT-1 virkjast sem leiðir til framleiðslu á utanfrumupróteinum. Aukning á magni glútathíóns í arfberum með inntöku N-acetylcystein gæti því skipt miklu máli sem meðferðarúrræði.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.