Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áreiðanleg hraðgreining á SARS-CoV-2 með munnvatni og LAMP aðferð

Höfundar:
Daníel Óskarsson, Kristján Gunnarsson, Hörður Gunnarsson, Jón Jónsson, Valtýr Thors, Már Kristjánsson, Karl Kristinsson

Viðmiðunaraðferðin við greiningu COVID-19 er PCR, sem krefst sérþjálfaðs starfsfólks og flókins tækjabúnaðar. Antigen hraðgreiningapróf eru ekki eins áreiðanleg. LAMP (Loop-mediated isothermal amplification) er ný aðferð sem byggist á kjarnsýrumögnun og getur haft sambærilegt næmi og sértæki og PCR. Markmiðið var að þróa LAMP aðferð til greiningar á SARS-CoV-2 í munnvatni með sambærilegt næmi og sértæki og PCR á nefkoks-/hálsstrokum. Þróaðir voru þreifarar, varðveisluvökvar og efnablöndur fyrir LAMP prófin. Einstaklingum með COVID einkenni sem komu til PCR sýnatöku á starfsstöð heilsugæslunnar við Suðurlandsbraut, COVID göngudeildina eða bráðamóttöku barna á Landspítalanum var boðin þáttaka. Nefkoks-/hálsstrokssýnin voru greind með PCR aðferð á Cobas 8800 tæki, en munnvatnssýnin með LAMP í 50 mínútur við 63°C.
Tekin voru sýni frá 90 einstaklingum, 79 fullorðnum og 11 börnum. Eitt munnvatnssýni var óhæft til rannsóknar. Af 89 samhliða greiningum bar þeim fullkomlega saman hjá 81 (26 neikvæð, 55 jákvæð). Báðar aðferðir misstu af 4 greiningum. Þar sem 4 nefkoks- /hálsstroksýni voru neikvæð í PCR en munnvatnssýnin jákvæð í LAMP, þá voru
munnvatnssýnin einnig greind með PCR og reyndust þá einnig jákvæð með þeirri rannsókn. Næmi beggja prófanna var 93,2% og sértæki LAMP aðferðarinnar 100%.
Greining á SARS-CoV-2 með munnvatni og LAMP aðferð getur verið jafn næm og sértæk
og greining á nefkoks-/hálsstrokum með PCR aðferð. Með notkun LAMP tækninnar er hægt
að greina veiruna á innan við 60 mínútum. Hvarefnakostnaður er mun lægri, sýnataka
auðveldari og þægilegri, sérstaklega hjá börnum og viðkvæmum hópum. Auðvelt er að skala tæknina upp og sjálfvirknivæða með notkun pípetturóbóta.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.