Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Algengi tóbaksreykinga meðal unglinga sem ganga í skóla í Bissá, Gíneu-Bissá

Höfundar:
Geir Gunnlaugsson, Thomas A. Whitehead, Aladje Baldé, Zeca Jandi, Hamadou Boiro, Jónína Einarsdóttir

Inngangur
Gögn benda til þess að við séum í miðjum tóbaksfaraldri og að afleiðingar hans muni valda miklum kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfi heimsins. Algengi sígarettureykinga er lægra í Afríku sunnan Sahara en í öðrum heimshlutum, en fer hækkandi og tóbaksfyrirtæki horfa til vaxandi markaðshlutdeildar á svæðinu. Hér er markmiðið að lýsa og greina sígarettureykingar meðal unglinga sem ganga í skóla í höfuðborginni Bissá, Gíneu-Bissá.

Efniviður og aðferðir
Í júní 2017 var spurningalistakönnun framkvæmd í Bissá með staðfærðum spurningalista „Planet Youth“. Alls tóku 2,039 nemendur á aldrinum 14-19 ára þátt (52% stúlkur). Kí-kvaðrat prófið var notað (p<0,05) og líkindahlutfall (OR) reiknað með 95% öryggisbili (CI) til að meta tölfræðilega marktækni. Mögulegar skýringarbreytur fyrir háðu breyturnar voru innleiddar í margliða aðhvarfslíkan og p-gildum umbreytt í LogWorth-gildi. Niðurstöður Af 1,845 unglingum sem svöruðu höfðu 1,573 (85%) aldrei á ævinni reykt sígarettur. Tæplega fimmtungur drengja hafði einhvern tíma reykt en 4,0% þeirra reykti sígarettur daglega. Til samanburðar hafði um tíundi hluti stúlkna reynslu af sígarettureykingum og 1,0% þeirra reykti daglega (OR 0,50, 95% CI 0,39-0,66; p<0,0001). Meðal mikilvægra áhrifaþátta fyrir reynslu af sígarettureykingum var að eiga vini sem reyktu, sækja einkaskóla, notkun áfengis og kannabis, passa inn í jafningjahópinn og hafa reynslu af notkun samfélagsmiðla. Mikilvægur áhrifaþáttur fyrir daglegar reykingar var reynsla af ofbeldi. Ályktanir Samanborið við önnur lönd, innan álfunnar og annars staðar, er algengi sigarettureykinga í lægri kantinum. Lágt algengi daglegra reykinga er tækifæri til að hefja forvarnarstarf meðal unglinga með sérstaka áherslu á kynjamun og aðgerðir gegn ofbeldi

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.