Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Áhrif kulda og vetrarveðurs í gönguþjálfun á blóðþrýsting, hjartslátt og mæði, hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm

Höfundar:
Telma Sigþrúður Guðbjarnadóttir, Karl Kristjánsson, Marta Guðjónsdóttir,Inga Sigurrós Þráinsdóttir

Inngangur: Áhrif kulda við áreynslu er lítið rannsakað hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm. Kuldarannsóknir hjá þeim hafa einblínt á ísvatnspróf (e. cold pressure test) sem virkjar sympatíska taugakerfið ásamt renín-angíótensín kerfinu. Kuldaáreiti á andliti t.d. við útiveru, veldur virkjun á parasympatíska kerfinu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort svörun við gönguþjálfun, utandyra að vetrarlagi, á blóðþrýsting, hjartsláttartíðni, mæði og hjartsláttartruflanir, væri frábrugðin því sem verður við sambærilega áreynslu innandyra hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er forkönnunar þversniðsrannsókn. Framkvæmdar voru mælingar við tvær sambærilegar göngur innandyra og utandyra í vetrarveðri í viðeigandi fatnaði. Þátttakendur (n=8) voru með sólarhringsblóðþrýstingsmæli og Holter mæli við göngurnar. Mældur var blóðþrýstingur og hjartsláttartíðni og spurt um mæði á Borg CR10 skala, hjartsláttaróþægindi og brjóstverk, fjórum sinnum; 1) standandi í hvíld, 2) sitjandi í hvíld (að undanskildri mæði), 3) í göngu og 4) endurheimt. Í útigöngu var umhverfishitastig og vindhraði mældur.
Niðurstöður: Ekki reyndist marktækur munur á milli mælinga innan- og utandyra á: systólískum blóðþrýstingi (p=0,160, 95% öryggisbil=[-8,50; 1,00]), díastólískum blóðþrýstingi (p=0,768, 95% öryggisbil=[-2,38; 3,19]), hjartsláttartíðni fenginni með sólarhringsblóðþrýstingsmæli (p=0,516, 95% öryggisbil=[-3,72; 1,91]) og hjartsláttartíðni fenginni með Holter-mæli (p=0,145, 95% öryggisbil=[ 6,40; 1,01]). Mæði á Borg CR10 skala var meiri utandyra en innandyra (p=0,013, 95% öryggisbil=[ 1,25; -0,25]). Enginn greindi frá hjartsláttaróþægindum/brjóstverk.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að upplifun á mæði sé marktækt meiri í göngu utandyra að vetrarlagi en í sambærilegri göngu innandyra hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm. Þó úrtakið sé lítið gefa niðurstöður vísbendingu um öryggi útigöngu að vetrarlagi hjá einstaklingum með kransæðasjúkdóm.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.