Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhrif ATL2-2 tjáningar á ferla sem eru virkir í T47D brjóstakrabbameinsfrumulínu

Nataliya Shabatura, Bylgja Hilmarsdóttir, Íris Thelma Halldórsdóttir, Gunnhildur Ásta Traustadóttir and Inga Reynisdóttir

Inngangur: Brjóstakrabbamein (brkm) er algengasta krabbamein sem greint er í konum á heimsvísu. Nýverið sýndum við hærri tjáningu ATL2-2 umrits Atlastin 2 (ATL2) gensins í brjóstaæxlum en í heilbrigðum brjóstavef og marktæka fylgni þess við þætti sem tengjast verri horfum brkm sjúklinga. ATL2 er í himnu frymisnetsins og tengir píplur í net. Ójafnvægi í frymisneti er algengt í ýmsum sjúkdómum, m.a. krabbameini. ATL2 framleiðir tvö fulllengdar umrit ATL2-1 (nákvæm stjórnun) og ATL2-2 (sívirkt). Oftjáning ATL2-2 leiðir til þess að frymisnetið fellur saman. Markmið rannsóknarinnar er að kanna tjáningu ATL genafjölskyldu í T47D og áhrif oftjáningar ATL2-2 á skrið, íferð og tjáningu ATL2-2 í frumuhringnum.

Efniviður: Tjáning ATL1-3 proteina og ATL2-1 og ATL2-2 umrita var könnuð með mótefnalitunum, qPCR mælingum og í RNA-Seq gögnum í brjóstakrabbameinsfrumulínunni T47D og í T47D sem ber breytingar í útröð 11 eftir CRISPR/Cas12a meðhöndlun (mögulega ATL2 knockout frumulína (KO)).

Niðurstöður: T47D tjáir meira magn ATL2-1 umrits en ATL2-2. T47D tjáir ATL2 protein en ekki er hægt að greina milli isoformanna tveggja þar sem eðlisþyngd þeirra er nánast sú sama. T47D tjáir ATL3 og Calnexin, sem er merkiprótein fyrir frymisnetið, en ekki ATL1. Tveir ATL2 KO klónar (tjá ekki ATL2 protein) fundust meðal CRISPR/Cas12a klónanna.

Ályktanir: Miklar breytingar verða á frymisnetinu áður en fruman skiptir sér í tvær dótturfrumur eða frumur losna úr frumæxli og meinvarpast. Næstu skref munu beinast að því að kanna hvort tjáning ATL2-1 og ATL2-2 breytist í frumuhringnum og hvort hærri tjáning ATL2-2 ýti undir skrið eða íferð.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.