Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Á tímum heimsfaraldurs: Reynsla unglinga af lokun skóla í Bissá, Gíneu-Bissá

Höfundar:
Fatou N’Dure Baboudóttir, Zeca Jandi, Bucar Indjai, Jónína Einarsdóttir, Geir Gunnlaugsson

Inngangur
Covid-19 heimsfaraldurinn hafði áhrif á líf barna á ótal vegu um allan heim. Hann afhjúpaði en jafnframt jók á ójöfnuð milli barna innan landa og þvert á og milli heimsálfa og hamlaði menntun þeirra. Í Gíneu-Bissá var lokun skóla ein fyrsta aðgerðin sem var innleidd til að takast á við heimsfaraldurinn. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa og greina reynslu unglinga af lokun skóla í höfuðborginni Bissá, áhyggjur þeirra af framtíð sinni og birtingarmyndir ójöfnuðar meðal þeirra.

Efniviður og aðferðir
Eigindlegum gögnum var safnað með hálfskipulögðum, opnum viðtölum við 30 unglinga á aldrinum 15-17 ára þremur mánuðum eftir að heimsfaraldurinn hófst og neyðarástand ríkti í landinu. Viðtölin voru þemagreind í Atlas.ti.

Niðurstöður
Þemagreining meitlaði fram fimm þemu: jákvæð viðhorf menntunar, tilfinning um að vera skilinn eftir, innilokun, tillögur um stuðning og óviss framtíð. Þátttakendur fengu engan markvissan stuðning þegar skólar lokuðu. Þeir vissu þó af slíkri viðleitni annars staðar og kvörtuðu undan að njóta ekki svipaðra tækifæra. Þeir sem voru í skóla komu með tillögur til að draga úr áhrifum skólalokana á nám sitt. Þeir sem voru utan skóla en stefndu að því að snúa aftur í nám sáu möguleika sína til þess dvína. Næstum allir kunnu að meta menntun til persónulegs og samfélagslegs ávinnings og höfðu áhyggjur af langtímaáhrifum heimsfaraldursins.

Ályktanir
Niðurstöðurnar undirstrika alþjóðlegan frekar en staðbundinn ójöfnuð meðal unglinga í Bissá. Mikilvægt er að bregðast við áhyggjum þeirra og efla skólastarf þeim til handa með alþjóðlega reynslu frá heimsfaraldri að leiðarljósi.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.