Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Príon arfgerðir í íslenskum riðuhjörðum og áhrif þess að fjarlægja hrúta með áhættuarfgerð úr sæðingarstöðvum

Aðalhöfundur: Eva Hauksdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Stefanía Þorgeirsdóttir (flytjandi), Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Inngangur: Smitefni riðusjúkdómsins er príon prótein, sem hefur tekið á sig óeðlilega þrívíddarmynd og orðið smitandi (PrPSc). Smitnæmi PrPSc verður fyrir áhrifum af arfgerðum Prnp, en þær sýna mismunandi næmni gagnvart hefðbundinni riðu. Þessi rannsókn lagði mat á þau áhrif sem fjarlæging hrúta með VRQ áhættuarfgerð úr sæðingarstöðvum hafði á dreifingu Prnp arfgerða í hjörðum þar sem hefðbundin riða greindist. Auk þess voru metin áhrif þess á dreifingu arfgerða vísisýna hjarðanna (e. index sample) og aldur.

Efniviður og aðferðir: Bornar voru saman arfgerðir fjár í hjörðum með hefðbundna riðu og arfgerðir vísisýna þeirra, frá árunum 2010-2019 (tilraunahópur, n = 1450 og 10, í þeirri röð) við 1998-2007 (viðmiðunarhópur, n = 1081 og 32, í þeirri röð).

Niðurstöður: Marktækur munur var til staðar á tíðni amínósýra í táknum 136 og 154 (p < 0,0001, fyrir báða) hjá hefðbundnum riðuhjörðum. Hins vegar kom þessi munur ekki fram hjá vísisýnum hjarðanna, enginn munur var á tákna 136 (p = 0,9784) og tákni 154 sýndi engan breytileika. Enginn munur var heldur á aldri vísisýnanna (p = 0,2808) milli tilraunahópsins (miðgildi: 36 mánuðir; bil: 24-48) og viðmiðunarhópsins (33 mán; 12-108).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að fjarlæging VRQ hrúta frá sæðingarstöðvunum hafi haft áhrif á erfðafræðilegan breytileika Prnp. Tíðni áhættuarfgerða, sem innihalda VRQ genasamsætu, hefur lækkað í hefðbundnum riðuhjörðum, en þessi breyting greindist ekki hjá vísisýnum hjarðanna, né varð breyting á aldri þeirri. Okkar tilgáta er sú að ekki hafi liðið nógu langur tími til þess að áhrif þessarar aðgerðar séu komin fram að fullu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.