Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Öndunarörðugleikar hjá fullburða nýburum sem fæðast með valkeisaraskurði

Aðalhöfundur: Katrín Hrefna Demian
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þórður Þórkelsson, Læknadeild Háskóla Íslands, Barnaspítali Hringsins. Hildur Harðardóttir, Læknadeild Háskóla Íslands, Kvennadeild Landspítala. Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir, Kvennadeild Landspítala.

Inngangur: Þekkt er að valkeisaraskurður (VKS) er áhættuþáttur fyrir öndunarörðugleikum hjá fullburða nýburum. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvort barksteragjöf á meðgöngu minnki nýgengi öndunarörðugleika hjá fullburða börnum sem fæðast með VKS og hvort munur sé á nýgengi og alvarleika öndunarfæravandamála eftir meðgöngulengd.

Efniviður og aðferðir:  Þýðið samanstóð af einburum sem fæddust með VKS eftir ≥37 vikna meðgöngu á kvennadeild Landspítala árin 2000 – 2019 (n=3501). Áhrif barksteragjafar á meðgöngu var könnuð hjá konum sem fæddu með VKS við 37 vikna meðgöngu (n=188). Klínískar upplýsingar fengust úr gagnagrunni Vökudeildar og sjúkraskrám. Alvarlegur lungasjúkdómur var skilgreindur sem þörf fyrir súrefnismeðferð við tveggja klukkustunda aldur.

Niðurstöður: Af þeim 3501 fullburða börnum sem fæddust með VKS á rannsóknartímabilinu voru 104 börn (3,0%) sem fengu öndunarörðugleika strax eftir fæðingu. Nýgengi öndunarörðugleika var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd: 9,0% við 37 vikna, 4,6% við 38 vikna og 2,2% við 39-42 vikna meðgöngulengd. Af þeim 188 konum sem fæddu einbura með VKS við 37 vikna meðgöngu (37v0d – 37v6d) fengu 86 barkstera fyrir fæðingu.  Börn þessara kvenna fengu síður öndunarörðugleika en börn þeirra sem ekki fengu barkstera (p=0,052; OR=0,31). Áhættan á að fá alvarlegan lungnasjúkdóm var 77% minni hjá börnum sem fæddust eftir ≥38 vikna en 37 vikna meðgöngu (p=0,0284).

Ályktanir: Forðast skal að gera VKS <39 vikna meðgöngulengd, sé þess nokkur kostur. Ef ekki er hægt að komast hjá því kemur til greina að gefa verðandi móður barkstera til þess að minnka líkur á öndunarörðugleikum hjá barninu, einkum ef gera þarf VKS fyrir 38 vikna meðgöngu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.