Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Notkun félagsmiðla og vellíðan unglinga í skólum í Bissá, Gíneu-Bissá

Aðalhöfundur: Geir Gunnlaugsson
Vinnustaður eða stofnun: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Aladje Baldé, Jean Piaget háskólinn í Bissá, Bissá, Gíneu-Bissá. Fatou N´dure Baboudóttir, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Hamadou Boiro, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og Félagsvísindastofnunin INEP, Bissá, Gínea-Bissá. Jónína Einarsdóttir, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Thomas Andrew Whitehead, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Zeca Jandi, Félagsvísindastofnunin INEP, Bissá, Gínea-Bissá.

Inngangur: Rafræn tækni gegnir mikilvægu hlutverki í því að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030 en aðgengi er misjafnt. Talið er að fjórir af hverjum fimm einstaklingum í hátekjuríkjum noti tölvur og rafræna miðla borið saman við einn af hverjum fimm í 47 fátækustu löndum heimsins. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa og greina notkun unglinga á tölvum og félagsmiðlum í Gíneu-Bissá og áhrif notkunar á heilsu og líðan þeirra.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum úr spurningakönnun sem var framkvæmd í 12 opinberum og fjórum einkaskólum í höfuðborginni Bissá. Spurningalistinn og framlagning hans í júní 2017 byggði á aðferðafræði Planet Youth samstarfsins. Spurningar voru fjölbreyttar, m.a. um heilsu og vellíðan en einnig 10 spurningar um notkun tölva og félagsmiðla.

Niðurstöður: Samtals 2.039 nemendur á aldrinum 14-19 ára svöruðu spurningalistanum. Helmingur þátttakenda hafði einhverja reynslu af notkun borðtölva/fartölva. Um þriðjungur notaði veraldarvefinn daglega en um tveir af hverjum þremur hafði reynslu af notkun félagsmiðla. Áhrifaþættir fyrir notkun voru kyn, tegund skóla, og félags- og efnahagsleg staða foreldra. Unglingar með reynslu af notkun félagsmiðla voru marktækt líklegri til að sýna einkenni kvíða og þunglyndis, neyta áfengis og tókbaks og hafa tekið þátt í hópeinelti.

Ályktanir: Mikilvægt er að bæta aðgengi ungmenna í Gíneu-Bissá á notkun rafrænnar tækni svo þeir fái tækifæri til að þróa með sér færni í notkun hennar til jafns við jafnaldra í hátekjuríkjum. Einnig þarf að huga að forvarnaraðgerðum meðal foreldra, nemenda og kennara um neikvæð áhrif notkunar félagsmiðla.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.