Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Náttúruleg meðgöngulengd kvenna, sem fæddu börn með valkeisaraskurði sem fengu öndunarörðugleika strax eftir fæðinguna

Aðalhöfundur: Katrín Hrefna Demian
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild, Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þórður Þórkelsson, Læknadeild Háskóla Íslands, Barnaspítali Hringsins Landspítala. Hildur Harðardóttir, Læknadeild Háskóla Íslands, Kvennadeild Landspítala. Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir, Kvennadeild Landspítala.

Inngangur: Börn sem fæðast með valkeisaraskurði (VKS) eru í aukinni áhættu að fá öndunarörðugleika strax eftir fæðinguna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort konum, sem eignuðust börn sem fæddust með VKS og fengu öndunarörðugleika strax eftir fæðingu, sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af þeim konum sem fæddu barn með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu, sem fékk öndunarörðugleika stuttu eftir fæðingu, á kvennadeild Landspítala árin 2000 – 2019 (hópur 1). Viðmiðahópur samanstóð af mæðrum barna sem fæddust með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu en fengu ekki öndunarörðugleika (hópur 2). Til þess að meta náttúrulega meðgöngulengd kvennanna í hópunum tveimur var borin saman meðgöngulengd systkina barnanna í hópum 1 og 2, sem fæddust eftir að móðir þeirra hafði farið sjálf í fæðingu eða í framköllun fæðingar vegna meðgöngulengdar. Klínískar upplýsingar fengust úr gagnagrunni Vökudeildar og sjúkraskrám.

Niðurstöður: 115 börn voru í hvorum hópi. Konurnar sem fæddu börn með VKS sem fengu öndunarörðugleika (hópur 1) gengu marktækt lengur með sín börn þegar þær fóru sjálfar í fæðingu, en þær sem eignuðust börn með VKS en fengu ekki öndunarörðugleika (hópur 2), (p=0,008).

Ályktanir: Rannsóknin gefur vísbendingar um að þeim konum, sem fæða börn sem fá öndunarörðugleika eftir VKS, sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur. Hugsanlega mætti því minnka líkur á öndunarörðugleikum hjá börnum þeirra með því að fresta VKS hjá þeim nær 40 vikna meðgöngu, svo framarlega sem aðstæður leyfa.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.