Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Mat hjúkrunarfræðinema og hjúkrunarstjórnenda á hæfni hjúkrunarfræðinema á lokaári í námi: Lýsandi ferilrannsókn

Aðalhöfundur: Herdís Sveinsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands (HÍ)

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Hrund Sch Thorsteinsson, Landspítali Háskólasjúkrahús (LSH), Margrét Hrönn Svavarsdóttir, Háskólinn á Akureyri, Katrín Blöndal, HÍ og LSH, Brynja Ingadóttir, HÍ og LSH, PROCOMPNurse Consortium.

Inngangur: Sterk tengsl hafa komið fram milli hæfni hjúkrunarfræðinga og spítalasýkinga, fylgikvilla aðgerða, dánartíðni og fleiri þátta. Skortur er á þekkingu á hæfni nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga og hvernig hæfnin þróast á fyrsta ári en þetta tímabil hefur mikið að segja varðandi framtíðarferil hjúkrunarfræðinga í starfi.

Markmið: Að kanna þróun á hæfni hjúkrunarfræðinema í sex Evrópulöndum frá lokanámsári þar til ári eftir útskrift að mati nemendanna sjálfra og hjúkrunarstjórnenda. Niðurstöður um íslenska hjúkrunarfræðinema á lokanámsári verða kynntar.

Aðferð: Sniðið er lýsandi ferlirannsókn og hófst gagnaöflun heildarrannsóknar 2018 og lauk 2020. Úrtak er hjúkrunarfræðinemar á lokaári 2018-2019 og hjúkrunarstjórnendur. Spurningalisti sem inniheldur ýmsar bakgrunnsspurninga auk matstækisins Hæfni hjúkrunarfræðinga er lagður fyrir þátttakendur. Matstækið inniheldur 73 atriði og skiptist í 7 hæfniþætti (umönnun, kennslu- og leiðbeinendahlutverk, greiningarhlutverk, stjórnun í aðstæðum, hjúkrunaríhlutanir, trygging gæða og starfshlutverk). Spurt er um hæfni á skalanum 0 (mjög lítil hæfni) til 100 (mjög mikil hæfni).

Niðurstöður: Fjöldi hjúkrunarnemanna sem tók þátt var 64 og hjúkrunarstjórnenda 30. Meðalstarfsreynsla nemenda utan námsdvalar var rúm þrjú ár, hjúkrunarstjórnenda í stjórnun tæp sjö ár. Bæði stjórnendur og nemendur mátu heildarhæfni nemenda tæplega 70 og báðir hóparnir mátu hæfina mesta í umönnunarhlutverki og minnsta í kennslu- og leiðbeinendahlutverki. Þeir töldu að útskriftarnemar væru mjög áhugasamir um að verða hjúkrunarfræðingar en töldu síður að þeir hefðu skýr framtíðarplön og að þeir hefðu íhugað að skipta um starfsvettvang.

Langflestir nemendur voru ánægðir eða mjög ánægðir með námið í heild, akademíska hlið þess og klíníska námið.

Ályktun: Mat hjúkrunarnema og hjúkrunarstjórnenda á færni nemenda er nokkuð svipað.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.