Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Listir og menning sem hugarefling við alzheimerssjúkdómnum

Aðalhöfundur: Halldóra Arnardóttir
Vinnustaður eða stofnun: Sarq arkitektar

Inngangur: Athugunin um hvort listir og menning geti verið hluti af meðferð án lyfja við alzheimers er þverfagleg, milli heilbrigðisstofnana, dagþjálfana, safna og listamanna. Markmiðið er að auka lífsgæði og draga úr geðrænum einkennum sem oft vilja fylgja sjúkdómnum: þunglyndi, kvíða, öryggisleysis, depurðar og ótta. Listir og menning þjóna sem hugarefling og eykur virkni og þátttöku þeirra sem glíma við sjúkdóminn.

Aðferð: Stuðst var við hefðbundna aðferð félagsvísinda, þ.e. eigindlega rannsókn. Spurningalistar sem byggja á eigindlegri aðferðafræði voru notaðir við öflun gagna með myndaspurningalistum sem hver þátttakandi svaraði persónulega. Greind var athygli þeirra og örvun tilfinningaminnis/atburðaminninga og þar með var gerð tenging við lífssögu þátttakendanna sjálfra. Hópur 6-8 einstaklinga með alzheimer ásamt aðstandendum fóru mánaðalega á safn og fylgdu sérsniðinni dagskrá. Dagskráin var byggð upp með tilliti til almennra einkenna alzheimerssjúkdómsins: minnisskerðingu, athyglisbrests, máltruflunar, dómgreindarskerðingu, skertrar ratvísi og geðrænna áhrifa. Með því að velja þema og myndverk fyrirfram sem tengdu þátttakendur við tímann, staðinn, tilfinningar, félagsleg samskipti, veðurfar og gætu brúað bilið milli þess liðna og núvitundarinnar, var stuðlað að því að styrkja getu/hæfni/sjálfstraust, jákvæð viðhorf og örvun.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu ánægju og jákvæðar reynslu þátttakenda. Stuðst var við svör spurningalista framkvæmdra heimsókna á tímabilinu frá nóvember 2015 til júní 2018. Sýna niðurstöður að heimsóknin eykur samkennd, félagslega samveru og tjáskipti án fordóma. Stund sem veitir ánægju og gleði, og vekur góða tilfinningu sem stendur yfir í nokkurn tíma. Þó einstaklingurinn með alzheimers sé ófær um að lýsa atburðinum eða kveikjunni að vellíðan sinni, eykur hún lífsgæði sem er keðjuverkandi og stuðlar að betri heilsu, tilfinningalífi hans og aðstandenda.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.