Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Líkamsástand barna og unglinga á Sauðárkróki og í Varmahlíð fyrr og nú

Aðalhöfundur: Linda Björk Valbjörnsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands. Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki.

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Árni Árnason, Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands. Gáski sjúkraþjálfun, Reykjavík, Þórarinn Sveinsson, Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands.

Inngangur: Á fyrri hluta 20. aldar voru læknar og kennarar farnir að huga að heilsufari skólabarna á Íslandi og töldu að líkamsmælingar væru mikilvægar til að fylgjast með líkamsþroska og gætu nýst til samanburðar við mælingar í öðrum landshlutum, löndum og við rannsóknir. Á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga eru varðveitt viðamikil gögn um mælingar á líkamsástandi barna á Sauðárkróki á árunum 1912–1953 sem framkvæmdar voru af Jóni Þ. Björnssyni skólameistara.

Efniviður og aðferðir: Hæð, þyngd, gripstyrkur, brjóstvídd og andrýmd 6–15 ára barna var mæld tvisvar yfir skólaárið 2018–2019 í Árskóla á Sauðárkróki og í Varmahlíðarskóla. Mælingarnar voru bornar saman við samskonar mælingar sem framkvæmdar voru í Barna- og Gagnfræðaskóla Sauðárkróks á árunum 1912–1953.

Niðurstöður: Börn skólaárið 2018–2019 voru í flestum bekkjum marktækt hærri, þyngri og með hærri líkamsþyngdarstuðul, meiri brjóstvídd og andrýmd en jafnaldrar þeirra á árunum 1912–1953. Leiðrétting fyrir hæð og þyngd í brjóstvíddar- og andrýmdarmælingum sýndu samskonar niðurstöður og án leiðréttingar. Börn skólaárið 2018–2019 voru með marktækt minni gripstyrk en jafnaldrar þeirra voru í 2. og 4.–7. bekk þegar leiðrétt var fyrir hæð og þyngd. Þá var einnig þróun á líkamsástandi barna yfir tímabilið 1912–1953 þar sem marktæk aukning varð í flestum mælingum.

Ályktanir: Marktæk aukning á mældum þáttum skólaárið 2018–2019 samanborið við tímabilið 1912–1953 má hugsanlega rekja til bættra lífsgæða, s.s. betri húsakosts og aukins framboðs af matvöru. Minni gripstyrk barna skólaárið 2018–2019 má hugsanlega rekja til meiri kyrrsetu vegna aukinnar tækniþróunar.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.