Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Langtímarannsókn á framvindu stams

Aðalhöfundur: Jóhanna Thelma Einarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Brynja Dögg Hermannsdóttir, Háskóli Íslands. Kathryn Crowe, Háskóli Íslands.

Inngangur: Þroskatengt stam hefst yfirleitt hjá börnum þegar þau eru á leikskólaaldri. Mörg þeirra ná bata en hjá sumum verður stamið þrálátt. Í þessari langtímarannsókn var fylgst með börnum í 14 ár sem höfðu stamað á leikskólaaldri. Könnuð var framvinda stamsins og áhrif þess á félagsleg samskipti og lífsgæði.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur (38 börn) voru athuguð þegar þeir voru á leikskólaaldri (2-5 ára), á grunnskólaaldri ( 9-13 ára) og á framhaldsskólaaldri (15-20 ára). Tekin voru málsýni af tali þeirra og aflað bakgrunnsupplýsinga um þróun stamsins. Á framhaldsskólaaldri svöruðu þátttakendur auk þess spurningum um félagsleg samskipti og lífsgæði. Bati á stami var skilgreindur annars vegar sem fullur bati (ekkert stam) hins vegar sem umtalsverður bati (stam kom einstaka sinnum  í daglegu lífi). Brottfall var ekkert við aðra athugun en 16% við þá þriðju.

Niðurstöður: Við aðra athugun höfðu 55% þátttakenda náð fullum bata og 71% umtalsverðum bata. Við þriðju athugun höfðu 66% þátttakenda náð fullum bata og 88% umtalsverðum bata. Einungis fjórir þátttakendur stömuðu við þriðju athugun. Almennt töldu þátttakendur að þeir væru sjálföruggir í daglegu lífi og sýndu ekki merki um kvíða eða skert lífsgæði.

Ályktanir: Bati á stami jókst með auknum aldri þátttakenda. Stam á leikskólaaldri virðist almennt ekki hafa áhrif á dagleg samskipti einstaklinga síðar né heldur á lífsgæði þeirra.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.