Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Langtímaáhrif sex vikna endurhæfingar á svefn hjá vefjagigtarsjúklingum og tengsl svefngæða við vefjagigtareinkenni

Aðalhöfundur: Valdís Halla Friðjónsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Björg Þorleifsdóttir, Lífeðlisfræðistofnun, Læknadeild, Háskóli Íslands. Hlín Bjarnadóttir, Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð. Marta Guðjónsdóttir, Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð, Lífeðlisfræðistofnun, Læknadeild, Háskóla Íslands.

Inngangur: Vefjagigt einkennist meðal annars af langvinnum og útbreiddum verkjum, þreytu og svefntruflunum. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Annars vegar að skoða hvort munur sé á svefngæðum milli sjúklinga- og samanburðarhóps og skoða tengsl svefngæða við vefjagigtareinkenni. Hins vegar að skoða langtímaáhrif á svefngildum eftir endurhæfingu á Reykjalundi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru 25 konur með vefjagigt og 19 heilbrigðar konur í samanburðarhópi (aldur: 46,8+/-8,7 vs 48,4+/-9,3 ár og BMI: 31,6+/-5,3 vs 29,2+/-4,3 kg/m2) og luku 19 vefjagigtarkonur og 15 heilbrigðar konur rannsókninni að fullu. Gerðar voru virknimælingar (e. actigraph) í viku í senn og einkenni vefjagigtar metin með FIQ spurningalista á þremur tímapunktum; við upphaf (T1), við lok (T2) og níu mánuðum eftir lok (T3) sex vikna endurhæfingar á Reykjalundi. Svefngæði voru metin með PSQI spurningalistanum á T1.

Niðurstöður: Marktækur munur var á meðalsvefngæðum hópanna á tímapunkti T1 (p=0,008). Eftir því sem einkenni vefjagigtarinnar jukust versnuðu svefngæðin (r=0,828, p<0,001). Vefjagigtarhópurinn svaf að meðaltali marktækt lengur en samanburðarhópur (p=0,008) og eyddi meiri tíma í daglúra á viku (p=0,017). Meðaltími daglúra á viku lækkaði hjá vefjagigtarhópnum frá T1 að T3 en þó ekki marktækt (p=0,134). Næturvökutími og meðalsvefnnýtni var svipuð hjá báðum hópum á öllum tímapunktum.

Ályktanir: Mikill munur var á svefngæðum vefjagigtarsjúklinga miðað við samanburðarhóp enda sterkt tengsl milli vefjagigtareinkenna og svefngæða. Vefjagigtarsjúklingar sváfu að meðaltali lengur á næturnar og eyddu lengri tíma á viku í daglúra. Helstu langtímaáhrif endurhæfingarinnar á svefngildi fólust í styttingu daglúra sem þó var ekki marktæk, en er vísbending um reglulegra svefnmynstur hjá vefjagigtarkonum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.