Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Kulnun hjúkrunarfræðinema á tímum COVID-19

Aðalhöfundur: Birna Guðrún Flygenring
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Herdís Sveinsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands; Landspítali. Gísli Kort Kristófersson, Hjúkrunarfræðideild, Háskólinn á Akureyri. Hrund Scheving Thorsteinsson, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands; Landspítali. Margrét Hrönn Svavarsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskólinn á Akureyri; Sjúkrahúsið Akureyri. Jóhanna Bernharðsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands; Landspítali. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Lítið er vitað um kulnunareinkenni hjá hjúkrunarfræðinemum í COVID-19 faraldrinum en hann hafði í för með sér umtalsverðar breytingar á bóklegu og klínísku námi þeirra. Vísbendingar eru um að tilfinningaleg örmögnun og kulnun hafi aukist meðal háskólanema á þessum tímum og kulnun hefur áhrif á frammistöðu í námi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrifaþætti streitu og kulnunar hjá öllum hjúkrunarfræðinemum (grunnnemendum og framhaldsnemendum) við hjúkrunarfræðideildir Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri á tímum COVID-19 og viðhorf þeirra til breytinga sem urðu á námi þeirra.

Efniviður og aðferðir: Aðferðin var megindleg með lýsandi könnunarsniði. Gagna var aflað rafrænt með spurningalista sem innihélt mælitækin Perceived Stress Scale (PSS) og Copenhagen Burnout Inventory (CBI) sem mældu streitu og kulnun. Línuleg aðhvarfsgreining greindi áhrifaþætti kulnunar.

Meginniðurstöður: Þátttakendur voru 339 (32,6% svörun),  65% frá HÍ og 35% frá HA. Flestir þátttakendur voru í grunnnámi (77.8%) og meðalaldur þeirra var 30 ár. Meðalstig kulnunar á CBI kvarðanum (0-100) voru 42,9 á persónutengdri kulnun, 56,9 á námstengdri kulnun og 31,2 á kulnun tengdri samnemendum. Rúmlega 40% þátttakenda fundu fyrir meðal til alvarlegra kulnunareinkenna. Þrjár aðhvarfsgreinar voru unnar. Þættir sem spáðu fyrir kulnun voru; Streita á PSS kvarðanum, andleg og líkamleg heilsa, stuðningur við nám og á hvaða stigi nemendur voru í náminu.

Ályktun: Mikilvægt er að skipuleggjendur hjúkrunarfræðináms finni leiðir til að styðja við nemendur á álagstímum, kenni þeim jákvæð bjargráð til að minnka streitu og draga þannig úr kulnun meðan á námi stendur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.