Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Hvað ýtir undir eða hindrar notkun hermingar hjá kennurum læknanema?

Aðalhöfundur: Elsa Valsdottir
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands, Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ásta Bryndís Schram, Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Peter Dieckmann, CAMES.

Bakgrunnur: Herming er mikilvægt tæki til að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í mismunandi verklegum og samskiptafræðilegum áskorunum og sýnt hefur verið fram á að hún eykur öryggi sjúklinga. Herming er hins vegar dýr kennsluaðferð og kallar á innviði og þjálfun kennara. Þessi rannsókn var framkvæmd til að meta að hvaða marki herming er notuð sem kennsluaðferð fyrir læknanema, hvað ýtir undir notkun hennar og hvað hindrar notkun.

Aðferð: Rafræn spurningakönnun var send til 150 kennara sem kenna læknanemum við HÍ vorið 2020.

Niðurstöður: Alls svöruðu 97 kennarar, 65% svarhlutfall. Af þeim sögðust 28% nota hermingu við kennslu læknanema. Færnihermir (e: skills trainer) var oftast notaður, næst oftast var það hlutverkaleikur og að lokum sýndarsjúklingur (e: mannequin). Yngri kennarar voru líklegri til að hafa fengið þjálfun í að nota hermingu, að nota hermingu og vilja nota meiri hermingu. Þegar spurt var um hindranir fyrir notkun nefndu kennarar sem nota hermingu skort á aðstöðu, búnaði og fjármagni. Kennarar sem nota ekki hermingu nefndu skort á þjálfun sem þeirra helstu hindrun.

Ályktun: Notkun hermingar sem kennsluaðferðar hjá læknanemum við HÍ er ekki útbreidd. Inngrip til að auka notkun hennar gætu verið betri aðgangur að aðstöðu og búnaði við hæfi og að bjóða yngri kennurum, sem þegar hafa kynnst hermingu, tækifæri til þjálfunar.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.