Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Heilsuefling og heilsufarsmælingar á tímum Covid-19

Aðalhöfundur: Janus Guðlaugsson
Vinnustaður eða stofnun: Janus heilsuefling

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Andri Janusson, Janus heilsuefling. Anna Berglind Jónsdóttir, Janus heilsuefling. Bára Ólafsdóttir, Janus heilsuefling. Daði Janusson, Janus heilsuefling. Ingvi Guðmundsson, Janus heilsuefling. Lára Janusdóttir, Janus heilsuefling. Thor Aspelund, Miðstöð lýðheilsuvídinda Háskóla Íslands. Þóroddur Einar Þórðarson (flytjandi), Janus heilsuefling.

Inngangur: Eldri aldurshópar á Íslandi hafa ekki farið varhluta af Covid-19 faraldri eins og aðrir landsmenn. Það sem skilur þennan aldurshóp, 65 ára og eldri, frá öðrum eru meðal annars margir undirliggjandi sjúkdómar sem aldurshópurinn er að glíma við. Þá verður viðnámsþróttur ónæmiskerfis ekki eins mikill og hjá yngri aldurshópum og því meiri hætta á alvarlegum sýkingum. Faraldurinn hefur kallað á breyttan lífsstíl í rúmlega 12 mánuði.  Fyrirtækið Janus heilsuefling breytti heilsueflingarferli sínu fyrir 65+, snéri sér um tíma alfarið að fjölþættri fjarþjálfun til að gera hinum eldri kleift að takast lengur á við breytta tíma á sviði heilsueflingar.

Efniviður og aðferðir: Þjálfunaríhlutun og mælingar náðu til 12 mánaða tímabils, frá þeim tíma þegar fyrsta bylgja Covid-19 skall á í upphafi árs 2020. Snið rannsóknar er hentugleikaúrtak úr nokkrum sveitarfélögum sem annars stunduðu fjölþætta heilsueflingu undir leiðsögn (N=378). Áhersla var lögð á fjarþjálfun sem innihélt daglega þolþjálfun, styrktarþjálfun með teygjur og rafræn fræðsluerindi um heilsu- og næringartengd efni. Mælingar voru framkvæmdar á 6 mánaða fresti yfir tímabilið þar sem notast var við stöðluð próf á sviði öldrunar eins og sex mínútna göngupróf, styrktarpróf, SPPB-hreyfifærnipróf, líkamssamsetningu, liðleikamælingu og heilsumat.

Niðurstöður: Niðurstöður bornar saman við upphafsmælingu færðust sumar til betri vegar að lokinni 12 mánaða heilsueflingu meðan aðrar versnuðu. Blóðþrýstingur og líkamsþyngdarstuðull lækkaði, dagleg hreyfing jókst, styrktarþjálfun í heilsuræktarsal minnkaði verulega, vöðvaþol og gönguvegalengd jókst. Styrkur og vöðvamassi féll.

Ályktanir: Niðurstöður sýna mikilvægi fjölþættrar heilsueflingar fyrir eldri aldurshópa, sér í lagi þegar kemur að styrktarþjálfun með þungaberandi áherslur.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.