Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Heilkenni barnabiksásvelgingar (e. meconium aspiration syndrome) á Íslandi árin 1977-2018

Aðalhöfundur: Edda Lárusdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Hildur Harðardóttir, Kvennadeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands. Jurate Ásmundsson, Meinafræðideild Landspítala. Þórður Þórkelsson, Barnaspítala Hringsins, Læknadeild Háskóla Íslands.

Inngangur: Heilkenni barnabiksásvelgingar (HBBÁ) er lungnasjúkdómur nýbura sem getur komið til losi fóstrið barnabik í legvatn og ásvelging verði í kjölfarið. Tíðni sjúkdómsins eykst með vaxandi meðgöngulengd. Tengsl eru talin vera við súrefnisþurrð á meðgöngu, sem veldur m.a. þykknun vöðvalags lungnaslagæða, sem stuðlar að lungnaháþrýstingi eftir fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Afturskyggn, lýsandi rannsókn, að hluta tilfella-viðmiðarannsókn á fullburða börnum með HBBÁ 1977-2018. Fjögur fullburða börn sem ekki fengu HBBÁ voru valin fyrir hvert tilfelli sem viðmið. Upplýsingar fengust úr gagnagrunni Vökudeildar og sjúkraskrám. Þykkt vöðvalags lungnaslagæða var mæld í vefjasýnum frá meinafræðideild Landspítala.

Niðurstöður: Nýgengi HBBÁ á rannsóknartímabilinu var 1,5 á hver 1000 lifandi fædd fullburða börn og lækkaði markvert frá öðrum þriðjungi tímabilsins til þess þriðja (2,25 og 0,79 á hver 1000 börn: p<0,0001). Dánarhlutfall var 3,3% en ekkert dauðsfall varð eftir 1993. Meðgöngulengd ≥40 vikur og Apgar <7 við 5 mín. voru meðal áhættu- og forspárþátta. Fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum með HBBÁ sem þurftu öndunarvélameðferð var hærri en hjá viðmiðahópi (p=0,0001). Vöðvalag lungnaslagæða barna sem létust úr HBBÁ (n=5) mældist þykkara en hjá samanburðarhópi (p=0,0321).

Ályktanir: Lækkun á nýgengi HBBÁ síðustu 15 ár samræmist erlendum rannsóknum og hefur verið rakin til bættrar fæðingarhjálpar og fyrri framköllun fæðinga. Tilkoma hátíðniöndunarvélameðferðar (1994) og meðferðar með innönduðu nituroxíði (1996) hafa líklega bætt lífslíkur barna með HBBÁ. Lágur Apgar og aukinn fjöldi kyrndra rauðra blóðkorna hjá börnum með HBBÁ auk þykkara vöðvalags í lungnaslagæðum barna sem létust með sjúkdóminn styðja að súrefnisþurrð sé mikilvægur þáttur í tilurð og alvarleika sjúkdómsins.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.