Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Hefur tjáning á PLK1 í brjóstakrabbameinsvef áhrif á sjúkdómsháða lifun?

Aðalhöfundur: Soffía Rún Gunnarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Jón Gunnlaugur Jónasson, Háskóli Íslands, Landspítali. Laufey tryggvadóttir, Krabbameinsfélag Íslands. Sigríður Klara Böðvarsdóttir, Háskóli Íslands. Stefán Þórarinn Sigurðsson, Háskóli Íslands.

Inngangur: Polo-like kínasi 1 (PLK1) gegnir lykilhlutverki í stjórnun frumuhringsins. Hann getur meðal annars drifið ummyndun úr G2 í M fasa, tekið þátt í þroskun geislaskauta, myndun skiptispóla og umfrymisskiptingu. PLK1 virðist tjáð í mörgum krabbameinum, þar á meðal brjóstakrabbameinum og tengist yfirtjáning verri horfum. PLK1 hindrar eru í þróun og eru vísbendingar um að þríneikvæð brjóstakrabbamein og krabbamein sem skortir BRCA1 séu næm fyrir PLK1 hindrum. Hér verða tengsl PLK1 tjáningar við sjúkdómsframvindu og ýmsa meinafræðilega þætti skoðuð í stóru brjóstakrabbameinsþýði með áherslu á BRCA2 arfbera.

Efniviður og aðferðir: 450 sýni á örvefjasneiðum (TMA) hafa verið lituð með mótefnalitun fyrir PLK1. Þar af eru 343 stakstæð æxli og 122 með stökkbreytingu í BRCA2 geni. Kaplan-Meier lifunarkúrfur og log-rank próf voru notuð til að meta hvort munur væri á sjúkdómsháðri lifun á milli sjúklinga með PLK1 jákvæð og neikvæð æxli í mismunandi hópum.

Niðurstöður: Log-rank próf fyrir jákvæða PLK1 litun gaf p-gildi sem var nálægt því að vera marktækt fyrir brjóstakrabbameinsháða lifun í heildarþýðinu. Einnig var log-rank p-gildi nálægt því að vera marktækt  fyrir brjóstakrabbameinsháða lifun sjúklinga með stakstæð æxli og æxli með jákvæða estrogen viðtaka. Í vinnslu er að meta PLK1 litun á um 500 sýnum til viðbótar til að styrkja tölfræðina  og athuga hvort fá megi marktækar niðurstöður um tengsl PLK1 við brjóstakrabbameinsháða lifun.

Ályktanir: Vísbendingar eru um að tjáning á PLK1 geti haft áhrif á brjóstakrabbameinsháða lifun sjúklinga. PLK1 litun verður metin í um 1000 sýnum til þess að athuga hvort að marktækni fáist við brjóstakrabbameinsháða lifun.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.