Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Göngujafnvægisprófið Modified Dynamic Gait Index (mDGI): Áreiðanleiki og hugsmíðaréttmæti meðal eldri einstaklinga með vægar jafnvægisskerðingar

Aðalhöfundur: Sólveig Ása Árnadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ; Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, námsbraut í sjúkraþjálfun, HÍ

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ragnar Freyr Gústafsson, Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ; Sjúkraþjálfun Styrkur, Reykjavík. Nína Dóra Óskarsdóttir, Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ; Tindur sjúkraþjálfun, Hveragerði. Hólmfríður H. Sigurðardóttir, Sjúkraþjálfun Styrkur, Reykjavík.

Inngangur: Göngujafnvægisprófið Modified Dynamic Gait Index (mDGI) var nýlega þýtt yfir á íslensku. Markmiðið með þessu verkefni var að rannsaka áreiðanleika endurtekinna mælinga, innri áreiðanleika og hugsmíðaréttmæti þýðingarinnar.

Aðferðir: Próffræðirannsókn á hentugleikaúrtaki 10 karla og 20 kvenna, 67-91 árs (76,7±5,5), sem bjuggu heima og voru í sjúkraþjálfun haustið 2018 vegna jafnvægisskerðinga. Þátttakendur voru metnir einu sinni með nokkrum stöðluðum mælitækjum. MDGI var lagt fyrir tvisvar með 4-7 daga millibili og reiknuð stig fyrir mDGI-heildarkvarða, mDGI-undirkvarða (mDGI-gönguhraði, mDGI-göngulag, mDGIgöngustuðningur) og átta mDGI-prófhluta. Próffræðilegir eiginleikar voru metnir út frá; ICC(2,1) áreiðanleikastuðlum, pöruðum t-prófum, staðalvillu mælinga (SEM), Bland-Altman myndum, Cronbachs alfa og Mann Whitney U prófi. Marktektarmörk voru sett við p<0,05.

Niðurstöður: Áreiðanleiki endurtekinna mælinga var hár-framúrskarandi fyrir: heildarstig á mDGI (ICC=0,97), mDGI-gönguhraða (ICC=0,94), mDGI-göngulag (ICC=0,88) og mDGI-göngustuðning (ICC=1,00). Fyrir átta prófhluta mDGI var áreiðanleikinn góður-framúrskarandi (ICC=0,84–0,96). Innri áreiðanleiki var hár (0,91) fyrir mDGI-heildarstig, 0,89 fyrir mDGI-gönguhraða og 0,86 fyrir mDGI-göngulag. Ekki var kerfisbundinn munur á fyrri og seinni mælingum á mDGI (p=0,83-1,00). SEM var lág (1,32) fyrir mDGI-heildarstig, 1,17 fyrir mDGI-gönguhraða og 1,43 fyrir mDGI-göngulag.  Sterk-miðlungs fylgni var á milli mDGI og annarra mælinga sem byggja á sambærilegri hugsmíð. Miðlungs jákvæð fylgni var á milli heildarstiga mDGI og sjálfsmats á félagslegri virkni. Yngri þátttakendur stóðu sig betur á mDGI en þeir eldri (p=0,03).

Ályktanir: Mælingar á eldri borgurum með vægar jafnvægisskerðingar með íslenskri þýðingu á göngujafnvægisprófsinu  mDGI  hafa góða próffræðilega eiginleika, sem eru sambærilegir við rannsóknir með upprunalegri útgáfu. Sjúkraþjálfarar eru hvattir til að nota mælitækið í klínísku starfi, kennslu og rannsóknum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.