Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Fyrirburablóðleysi og blóðgjafir á Vökudeild Barnaspítala Hringsins árin 2000-2019

Aðalhöfundur: Sóley Isabelle Heenen
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild, Háskóla Íslands, Barnaspítali Hringsins

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Þórður Þórkelsson, Barnaspítali Hringsins, Læknadeild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Fyrirburar mynda ekki rauð blóðkorn fyrstu vikurnar eftir fæðingu og kallast slíkt blóðleysi fyrirburablóðleysi (e. anemia of prematurity). Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi fyrirburablóðleysis sem leiddi til blóðgjafar eftir meðgöngulengd og breytingar á meðferð við fyrirburablóðleysi með því að skoða fjölda blóðgjafa fyrir hvern fyrirbura, aldur (e. postnatal age) þeirra við síðustu blóðgjöf og viðmiðunargildi blóðrauða fyrir blóðgjöf.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Þýðið var allir fyrirburar fæddir eftir 23-32 vikna meðgöngulengd 2000-2019 og útskrifuðust lifandi af Vökudeild Barnaspítala Hringsins. Klínískar upplýsingar fengust úr gagnagrunni Vökudeildar og sjúkraskrám. Fyrirburablóðleysi sem leiddi til blóðgjafar var skilgreint ef fyrirburi fékk blóðgjöf eftir tveggja vikna aldur. Þegar metnar voru breytingar á nýgengi fyrirburablóðleysis var eitt viðmið valið fyrir hvert tilfelli, parað á meðgöngulengd (n= 420:420).

Niðurstöður: Nýgengi fyrirburablóðleysis sem leiddi til blóðgjafar var 38,5 fyrir hver 100 börn (347/901)  og var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Allir fyrirburar fæddir <27 vikur, nema einn, fengu blóð vegna fyrirburablóðleysis. Nýgengið var hærra 2010-2019 en 2000-2009 (43,6% og 27,6%; p<0,001). Fjöldi 29-32 vikna fyrirbura sem fengu blóðgjöf vegna fyrirburablóðleysis jókst (15,6% og 4,9%; p<0,001) ásamt því að þeir voru eldri við síðustu blóðgjöf (p<0,05) og fjöldi blóðgjafa á hvern fyrirbura var meiri (p<0,05). Ekki var marktæk breyting á fjölda blóðgjafa hjá 23-28 vikna fyrirburum, né breyting á viðmiðungildum í blóði við blóðgjöf hjá 29-32 vikna fyrirburum.

Ályktanir: Aukning hefur orðið á blóðgjöfum til 29-32 vikna fyrirbura hér á landi á undanförnum árum. Tilefni er því til að endurskoða verklag um blóðgjafir á Vökudeildinni.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.