Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Framsetningaráhrif tölulegra upplýsinga á skynjaðan alvarleika í heimsfaraldri: Hlutfallsleg tíðni, prósentur og myndir

Aðalhöfundur: Atli Valur Jóhannsson
Vinnustaður eða stofnun: Sálfræðideild, Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Jón Ingi Hlynsson, Sálfræðideild, Háskóli Íslands. Dr. Vaka Vésteinsdóttir, Sálfræðideild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Framsetning tölulegra upplýsinga getur haft áhrif á mat fólks þótt upplýsingarnar séu tölfræðilega þær sömu. Rannsóknir sýna að ólík framsetning leiðir til ólíks mats fólks á gögnum og að munur er á úrvinnslu fólks á upplýsingum eftir því hvort framsetningin er í formi hlutfallslegrar tíðni eða prósenta og/eða mynda. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hver áhrif framsetningar tölulegra upplýsinga eru á mat á alvarleika þjóðfélagsástands í kórónuveirufaraldri. Með hliðsjón af fyrri rannsóknum var búist við að þjóðfélagsástandið yrði metið alvarlegra þegar upplýsingar væru birtar í formi hlutfallslegrar tíðni.   

Efniviður og aðferð: Netkönnun var send út á 8.377 grunnnema við HÍ og hentugleikaúrtak af samfélagsmiðlum. Könnunin innihélt tölulegar upplýsingar sem hafa verið gefnar út um fjölda greindra smita á Íslandi þar sem kannað var hvort munur var eftir því a) hvort gefin er upp hlutfallsleg tíðni eða prósentur og b) hvort upplýsingar eru settar fram myndrænt eða ekki. Þátttakendur mátu staðhæfingar listans út frá skynjuðum alvarleika, svöruðu spurningum sem meta talnalæsi og gáfu bakgrunnsupplýsingar.   

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður benda að hluta til þess að þjóðfélagsástand sé metið alvarlegra þegar upplýsingar eru birtar í hlutfallslegri tíðni samanborið við prósentur. Þá er þjóðfélagsástand metið sambærilegt í framsetningu hlutfallslegrar tíðni og prósenta þegar myndrænar upplýsingar fylgja með.  

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að fólk upplifi þjóðfélagsástandið í kórónuveirufaraldrinum alvarlegra í framsetningu hlutfallslegrar tíðni samanborið við prósentur en að þessi munur komi ekki fram þegar framsetning er myndræn. Niðurstöður geta því nýst þeim sem að þurfa að koma mikilvægum tölulegum upplýsingum á framfæri til almennings.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.