Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Flókin samskipti í heimaþjónustu og leiðir til að takast á við þau

Aðalhöfundur: Vilhelmína Þ. Einarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild, Háskóli Íslands.

Inngangur: Í þessari rannsókn er athyglinni beint að krefjandi samskiptum í heimaþjónustu. Reynt verður að varpa ljósi á ástæður þess að hnökrar verða í samskiptum við skjólstæðinga og aðstandendur þeirra. Í sumum tilfellum getur verið að skjólstæðingar séu ósáttir við þjónustuna, en í öðrum tilfellum getur það tengst  ósætti í samskiptum milli starfsfólks, skjólstæðinga og aðstandenda þeirra.

Efniviður og aðferð: Um er að ræða eigindlega rannsókn, þar sem fram fara vettvangsathuganir á heimili skjólstæðinga þar sem fylgst er með samskiptum starfsfólks og heimilismanna. Auk þess er byggt á hálfstöðluðum viðtölum við skjólstæðinga, aðstandendur og eftir því sem við á, starfsfólk heimahjúkrunar og félagslegrar þjónustu. Gagnasöfnun hófst í janúar 2021 og þegar hefur verið safnað gagna um 2 tilfelli. Gert er ráð fyrir 6 til 8 tilfellum (e. case study) alls, þar sem hvert tilfelli inniheldur 5 til 7 viðtöl, ásamt vettvangsathugunum.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður benda til þess að ástæður fyrir flóknum samskiptum í heimaþjónustu geti tengst skynjun um virðingarleysi í samskiptum á báða bóga og skilningsleysi. Þá hafa samskiptin sem eru upplifuð neikvæð áhrif, bæði á skjólstæðinga og starfsfólk til hins verra. Þættir í verklagi hafa einnig neikvæð áhrif á samskipti.

Ályktanir: Á þessu stigi rannsóknarinnar er varhugavert að draga endanlegar ályktanir en samkvæmt rannsóknum á efninu erlendis frá er talið mikilvægt að skapa aðstæður til samræðna meðal starfsfólks um leiðir til að takast á við flókin samskipti. Áformað er að þróa slíkar leiðbeiningar fyrir starfsfólk heimaþjónustunnar á síðari stigum rannsóknarinnar.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.