Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Fitusýru samsetning blóðvökva snemma á meðgöngu hjá konum sem greinast síðar með meðgöngusykursýki

Aðalhöfundur: Ellen Alma Tryggvadottir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ingibjörg Gunnarsdóttir, Háskóli íslands, Landspítali. Bryndís Eva Birgisdóttir, Háskóli Íslands. Laufey Hrólfsdóttir, Sjúkrahúsið á Akureyri. Rikard Landberg, Chalmers University of Technology. Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir, Landspítali. Hildur Harðardóttir, Livio Reykjavík. Þórhallur Ingi Halldórsson, Háskóli Íslands.

Inngangur: Mögulega getur fitusýrusamsetning blóðvökva spáð fyrir um greiningu á sykursýki II síðar meir. Óljóst er hvort sama eigi við um meðgöngusykursýki. Fáar rannsóknir hafa skoðað fitusýrusamsetningu blóðvökva snemma á meðgöngu og tengsl við meðgöngusykursýki. Markmið var að bera saman fitusýrusamsetningu blóðvökva snemma á meðgöngu, hjá konum sem greindust síðar með meðgöngusykursýki og þeim sem greindust ekki. Einnig að bera saman fæðuval kvennanna m.t.t. fæðuhópa sem mögulega tengjast fitusýrustyrk í blóðvökva.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru konur úr PREWICE II rannsókninni (n=853) sem mættu í 11.-14. vikna fósturskimun á fósturgreiningardeild Landspítala 2017 – 2018.
Þá var fæðuval kannað með rafrænum fæðutíðnispurningarlista og blóðprufur fengnar til mælinga á styrk fitusýra. Upplýsingar varðandi meðgöngusykursýki greiningar fengust úr sjúkraskrá síðar.

Niðurstöður: 127 greindust með meðgöngusykursýki (14,9%). Heildarstyrkur allra fitusýra (mettaðar, einómettaðar og fjölómettaðar) var hærri hjá þeim konum sem síðar greindust með meðgöngusykursýki borið saman við þær sem greindust ekki (miðgildi: 2898 μg/ml og 2681 μg/ml, P=<0,01). Þar reyndist leiðréttur meðalmunur vera 145,71 μg/ml (95% CI: 55,4 – 241,0). Þessi munur var óháður þyngd kvennanna fyrir þungun. Mun á styrk fitusýra var ekki hægt að skýra fyllilega með mismunandi fæðuvali kvennanna.
Sá fjórðungur kvennanna sem mældist með hæstan heildarstyrk fitusýra snemma á meðgöngu, var líklegri til að greinast með meðgöngusykursýki (OR 2,14, CI: 1,22 – 3,75).

Ályktanir: Munur var á fitusýru samsetningu blóðvökva snemma á meðgöngu, hjá konum sem greindust síðar með meðgöngusykursýki í samanburði við þær greindust ekki. Munurinn virðist vera óháður þyngd kvenna fyrir þungun.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.