Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Fæðingarstofa Bjarkarinnar: Yfirlit yfir útkomur kvenna og barna á árunum 2018-2020

Aðalhöfundur: Stefanía Ósk Margeirsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Emma Marie Swift, Ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.

Bakgrunnur: Björkin veitir hraustum konum í eðlilegri meðgöngu samfellda þjónustu frá 34. viku meðgöngu og er eina ljósmæðrastýrða einingin utan sjúkrahúss á Íslandi. Erlendar rannsóknir sýna að hraustar konur í eðlilegri meðgöngu eru líklegri til að fæða um leggöng og án inngripa á ljósmæðrastýrðum einingum en á hátæknisjúkrahúsi.

Tilgangur: Að lýsa bakrunni (bæri, meðgöngulengd, aldur o.fl.) og útkomum kvenna og barna (vatnsfæðing, fæðingarstelling, blæðing eftir fæðingu, Apgar-stigun o.fl.) sem stefndu að því að fæða í fæðingarstofu Bjarkarinnar á tímabilinu janúar 2018 til desember 2020.

Aðferðir: Tekin voru saman gögn sem byggja á fæðingarskýrslum kvenna sem ætluðu sér að fæða í fæðingarstofu Bjarkarinnar á tímabilinu janúar 2018 til desember 2020. Við úrvinnslu gagnanna var notuð lýsandi tölfræði.

Niðurstöður: Heildarúrtak rannsóknarinnar var 384 konur. Af þeim fæddu 208 konur (54,3%) í fæðingarstofu Bjarkarinnar og fæddu þær allar um leggöng og án inngripa. Hlutfall frumbyrja var 37,5% á móti 62,5% fjölbyrja. Tæplega helmingur fæddu í vatni og 53,1% fæddi í uppréttri fæðingarstellingu. Mikill meiri hluti þeirra (86,5%) blæddu ≤ 500 ml eftir fæðingu. Ekkert barn hlaut Apgar-stigun undir 7 við 5 mínútur. Flutningur á hærra þjónustustig var mun algengari meðal frumbyrja en fjölbyrja. 12 konur (3,7%) fæddu barn sitt með keisaraskurði á hærra þjónustustigi.

Ályktun: Niðurstöðurnar sýna fram á lága inngripatíðni og jákvæðar útkomur meðal kvenna og barna. Þær samræmast erlendum og íslenskum heimildum um útkomur fæðinga á ljósmæðrastýrðum einingum. Nauðsynlegt er að þessar upplýsingar séu til staðar svo að konur geti tekið upplýst val um fæðingarstað. Nýta má þessar niðurstöður við endurskoðun á klínískum leiðbeiningum Embættis Landlæknis um val á fæðingarstað.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.