Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Fæðingarstellingar kvenna á Íslandi árin 2012-2018: Lýðgrunduð ferilrannsókn

Aðalhöfundur: Elfa Lind Einarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Embla Ýr Guðmundsdóttir, Háskóli Íslands. Helga Gottfreðsdóttir, Háskóli Íslands.

Inngangur: Fæðingarstelling getur haft áhrif á framgang fæðingar og fæðingarreynslu kvenna. Ýmsir þættir hafa áhrif á val um fæðingarstellingu svo sem menning fæðingarstaðar og bakgrunnsþættir kvenna.  Tilgangur þessarar rannsóknar er að kanna í hvaða stellingum konur á Íslandi nýta sér sem fæða einbura í höfuðstöðu jafnframt því að kanna tengsl milli bakgrunnsbreyta kvennanna við fæðingarstellingar.

Efniviður og aðferðir: Lýðgrunduð ferilsrannsókn, byggð á gögnum Fæðingaskráar. Úrtakið voru fæðingar kvenna sem fæddu einbura í höfuðstöðu um fæðingarveg án áhalda á árunum 2012-2018, alls 16.064 fæðingar þar sem fæðingarstellingar voru skráðar. Fæðingarstellingar voru skilgreindar láréttar og uppréttar, hver um sig með nokkra undirflokka. Við greiningu gagna var reiknað hlutfall og tíðni fæðingarstellinga, gerðar krosstöflur og kí-kvaðrat próf með bakgrunnsbreytum kvennanna.

Niðurstöður: Á tímabilinu fæddu 91,0% kvenna í láréttri fæðingarstellingu þar sem algengasta staðan var  hálfsitjandi staða, um 58,7% kvenna notuðust við hana. Næstalgengust var liggjandi á baki, 12,9% kvenna fæddu í þeirri stellingu. Um 8,0% kvenna fæddu í uppréttri stellingu. Af þeim hóp voru 5,8% á fjórum fótum og 1,0% standandi. Aðrar stellingar voru sjaldgæfari. Fjölbyrjur og konur eldri en 39 ára fæddu frekar í uppréttri fæðingarstellingu. Munur var á fæðingarstellingu kvenna eftir upprunalandi þeirra. Jafnframt var munur á fæðingarstellingum eftir fæðingarstöðum.

Ályktanir: Konur hér á landi virðast helst nýta sér láréttar stellingar í fæðingum. Tengsl eru milli ákveðinna bakgrunnsbreyta og láréttra fæðingarstellinga. Þörf er á frekari rannsóknum á því hvað stýrir ákvörðun um stellingu í fæðingu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.