Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Fæðingarsögur Bjarkarinnar: Eigindleg etnógrafísk frásagnargreining

Aðalhöfundur: Ilmur Björg Einarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands námsbraut í ljósmóðurfræði

Meðhöfundur, stofnun eða fyrirtæki:
Ólöf Ásta Ólafsdóttir, Háskóli Íslands námsbraut í ljósmóðurfræði.

Inngangur: Björkin er ljósmæðrastýrð eining sem veitir heildræna og samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og fyrstu dagana eftir fæðingu. Samfelld ljósmæðraþjónusta í gegnum barnseignarferlið nýtur aukinna vinsælda víðs vegar í heiminum og hafa rannsóknir sýnt að hún hefur jákvæð áhrif á fæðingarupplifun. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða reynslu kvenna sem fæða í Björkinni í gegnum fæðingarsögur þeirra sem birtust á vef Bjarkarinnar. Enn fremur að kanna áherslur í þjónustu Bjarkarinnar og hvernig ljósmæður hennar stuðla að jákvæðri fæðingarreynslu.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er eigindleg út frá etnógrafískri nálgun. Notast var við frásagnar- og þemagreiningu við greiningu á fæðingarsögum kvenna sem birt hafa sögur sínar á vef Bjarkarinnar. Í kjölfarið var tekið rýnihópaviðtal við 5 ljósmæður Bjarkarinnar þar sem helstu áhersluþættir í þjónustu þeirra voru greindir.

Niðurstöður: Fæðingarreynsla kvennanna endurspeglast í þremur meginþráðum: 1) undirbúningur fæðingar, 2) jákvæð fæðingarupplifun og 3) jákvæð samskipti. Nokkur stef tilheyra hverjum meginþræði sem lýsa reynslunni í meiri dýpt. Ljósmæður Bjarkarinnar vilja styðja við ákvarðanatöku skjólstæðinga, veita fullnægjandi faglega upplýsingagjöf og stefna að því að foreldrar vaxi í hlutverki sínu, fái tækifæri til að vera þau sjálf og upplifi sig við stjórnvölinn í barneignarferlinu.

Ályktanir: Þegar kona þekkir ljósmóður sína og hefur stuðningsaðila sem hún treystir er líklegra að henni líði vel í fæðingunni. Samfelld ljósmæðraþjónusta Bjarkarinnar styður við jákvæða fæðingarupplifun þeirra kvenna sem hana þiggja. Þetta þjónustuform ætti að efla, rannsaka frekar og vera í boði víðar innan barneignarþjónustunnar á Íslandi.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.