Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Tíðni eðlilegra fæðinga á Landspítala fyrir og eftir sameiningu fæðingardeilda: Afturvirk ferilrannsókn

Aðalhöfundur: Sigurveig Ósk Pálsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Berglind Hálfdánsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði.

Inngangur: Þann 1. mars 2014 var gerð breyting á skipulagi fæðingarþjónustu á Landspítala með sameiningu fæðingardeildar Landspítala, sem sinnti bæði hraustum konum og konum með áhættuþætti, og fæðingarhluta Hreiðursins sem var ljósmæðrastýrð eining fyrir hraustar konur í eðlilegri fæðingu. Eitt af markmiðum sameiningarinnar var að standa vörð um eðlilegar fæðingar. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hvort þeim markmiðum hefði verið náð og styðja við frekari þróun þjónustu fæðingarvaktar Landspítala við þá ólíku hópa kvenna sem þangað leita.

Efniviður og aðferðir: Um afturskyggna ferilrannsókn er að ræða á öllu þýði kvenna í rafrænni, íslenskri fæðingarskráningu sem fæddu einbura á fæðingardeildum Landspítala á tveimur tveggja ára tímabilum fyrir og eftir sameiningu, 2012-2013 og 2015-2016. Aðalútkoma var leiðrétt fyrir áhrifabreytum í lógistískri aðhvarfsgreiningu, aðrar breytur voru skoðaðar með lýsandi tölfræði, t-prófum og kí-kvaðratprófum.

Niðurstöður: Tíðni eðlilegra fæðinga, bæði án belgjarofs og með mögulegu belgjarofi, jókst marktækt eftir sameiningu fæðingardeilda Landspítala. Það dró marktækt úr tíðni belgjarofs í fæðingu, hríðarörvunar með oxytocin og spangarklippingar. Jafnframt dró marktækt úr notkun utanbastdeyfingar eftir sameiningu en munurinn var ekki marktækur þegar aðeins sjálfkrafa sótt var skoðuð. Hins vegar jókst tíðni framköllunar fæðingar marktækt eftir sameiningu. Ekki var marktækur munur á tíðni 5 mínútna Apgarstiga undir 7.

Ályktanir: Í erlendum rannsóknum er tíðni inngripa aukin hjá hraustum konum sem fæða á þverfæðilegum fæðingardeildum sjúkrahúsa eftir eðlilega meðgöngu, samanborið við heimafæðingar og ljósmæðrastýrðar einingar. Því er áhugavert og jákvætt að náðst hafi með fyrirbyggjandi aðgerðum að auka tíðni eðlilegra fæðinga á fæðingarvakt Landspítala, sem er þverfræðileg fæðingardeild.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.