Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Það var engin panikk – Reynsla hjúkrunarstjórnenda af stofnun göngudeildar fyrir COVID-19 smitaða sjúklinga

Aðalhöfundur: Helga Jónsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild H.Í. og Meðferðarsviði Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sólveig H. Sverrisdóttir, Aðgerðasviði Landspítala. Anna Hafberg, Aðgerðasviði Landspítala. Geirný Ómarsdóttir, Aðgerðasviði Landspítala. Erla Dögg Ragnarsdóttir, Aðgerðasviði Landspítala. Steinunn Ingvarsdóttir, Aðgerðasviði Landspítala. Brynja Ingadóttir, Hjúkrunarfræðideild, H.Í. Skrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar Landspítala. Elín J.G. Hafsteinsdóttir, Skrifstofu framkvæmdastjóra hjúkrunar Landspítala. Sigríður Zoëga, Hjúkrunarfræðideild, H.Í. og Aðgerðasviði Landspítala. Katrín Blöndal, Aðgerðasviði og Menntadeild Landspítala.

Inngangur: COVID-19 sjúkdómurinn leiddi til fordæmalausra atburða í íslensku heilbrigðiskerfi og samfélaginu öllu. Atburðirnir gerðust hratt og höfðu djúpstæðar afleiðingar. Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi var starfseminni umbylt á örskotstundu, þ.á.m. sett á fót göngudeild til að annast sýkta sjúklinga. Hjúkrun gegndi lykilhlutverki í tilurð og rekstri göngudeildarinnar. Fræðilegur rammi þessarar rannsóknar er líkan Donabedian um gæði í heilbrigðisþjónustu og líkan Allen sem m.a. lýsir hversu lítt sýnileg skipulagning og stjórnun er í störfum hjúkrunarfræðinga. Rannsóknaspurningin er: Hver er reynsla og þáttur hjúkrunarstjórnenda af að koma á fót og reka göngudeild fyrir COVID-19 smitaða einstaklinga í fyrstu bylgju faraldursins?

Efniviður og aðferðir: Eigindleg rannsókn sem byggir á samstarfi fimm hjúkrunarstjórnenda og hóps hjúkrunarrannsakenda. Gagna var aflað í fjórum rýnihópaviðtölum. Gögn voru greind með efnisgreiningu, hvort tveggja með afleiðslu og aðleiðslu, í kóða, undirflokka, meginflokka og yfirflokk.

Niðurstöður: Í þverfaglegri samvinnu sem einnkendist af virðingu og tausti tóku hjúkrunarstjórnendurnir mikilvægar ákvarðanir hratt og fumlaust um fyrirkomulag og framkvæmd hjúkrunarinnar í göngudeildinni. „Það var ekki panikk – það fordæmalausa skorað á hólm“ var meginatriði í reynslu þeirra og einkenndist í tvennu: 1. Allir gengu í takt, sem fólst í: „Yfirvöld gáfu tóninn“, „Koma reglu á hlutina“ og „Gagnkvæm virðing og teymisvinna“. 2. Innblásnar af miklum árangri sem fólst í: „Uppgötva eigin getu“ og „Ánægja með árangur eigin starfa“.

Ályktanir: Í fordæmalausum aðstæðum, með styrkum stuðningi frá stjórnendum spítalans og í öflugri þverfaglegri samvinnu höfðu hjúkrunarstjórnendurnir tækifæri til að nýta þekkingu sína og hæfni til hins ítrasta. Notkun fjarheilbrigðistækni tók miklum breytingum, einnig í öflugu þverfaglegu samstarfi.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.