Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Opinn fyrirlestur: „Svo bregðast krossbönd – ítrekað“ Orsakir, afleiðingar og forvarnir hnémeiðsla

Kristín Briem

Prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Slit á fremra krossbandi í hné eru þau íþróttameiðsli sem fá hvað mesta athygli í fjölmiðlum. Ástæðan er sannarlega sú að þau eru alvarleg og mikið áfall fyrir þá einstaklinga sem fyrir meiðslunum verða og jafnvel líka fyrir þeirra félagslið eða landslið. Meðferð felst langoftast í skurðaðgerð og langri endurhæfingu, en þó ná ekki allir að snúa farsællega aftur á fyrra getustig.

Í þessu erindi verður rýnt í ýmsar tegundir rannsókna og fjallað um það hverjir meiðast helst og hvaða afleiðingar slit á fremra krossbandi geta haft til skemmri og lengri tíma. Einstakir áhættuþættir verða skoðaðir sérstaklega og settir í samhengi við þær þjálfunaraðferðir sem helst er verið að nota til að fyrirbyggja þessa afdrifaríku hnéáverka.

Fundarstjóri: Inga Þórsdóttir

Um Kristínu

Kristín Briem er prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar tengist hreyfivísindum og þá sérstaklega hlutlægri greiningu á hreyfingu og athafnagetu mannsins. Helstu rannsóknir Kristínar í dag hafa það að markmiði að auka þekkingu á þróun slitgigtar í hné og draga úr algengi hennar með því að fækka alvarlegum, íþróttatengdum hnémeiðslum.

Kristín starfar m.a. með rannsóknarhópum frá Gautaborgarháskóla við lífaflfræðilegar rannsóknir í tengslum við hásinaslit, og með rannsakendum úr verkfræðideild Háskóla Íslands og frá stoðtækjafyrirtækinu Össuri við rannsóknir í tengslum við þróun gervifóta.

 

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.