Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Súrefnismælingar í augnbotnum í heilbrigðum og við væga vitræna skerðingu

Aðalhöfundur: Védís Helgadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar HÍ

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Einar Stefánsson, Augndeild Landspítala, Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar HÍ. Jón G. Snædal, Öldrunarlækningadeild Landspítala. Ólöf Birna Ólafsdóttir, Augndeild Landspítala, Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar HÍ. Sveinn Hákon Harðarson, Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar HÍ. Þórunn Scheving Elíasdóttir, Hjúkrunarfræðideild HÍ, Svæfinga- og skurðhjúkrun á Landspítala.

InngangurVísbendingar eru um að súrefnismettun í sjónhimnuæðum  mælist hærri í fólki með væga vitræna skerðingu eða Alzheimers sjúkdóm samanborið við heilbrigða einstaklinga. Tilgangur þessa verkefnis er að skoða breytingar í sjónhimnu fólks með væga vitræna skerðingu ásamt því að kanna hvort súrefnismælingar hafi forspárgildi um hvort væg vitræn skerðing þróist í Alzheimers sjúkdóm og hvort að súrefnismettun í sjónhimnuæðum breytist í framgangi sjúkdóma. Fyrsta skref er þó að athuga hvort munur er á mældri súrefnismettun eftir því hvort handvirkur eða sjálfvirkur súrefnismælingahugbúnaður er notaður. 

Efniviður og aðferðirSúrefnismettun í sjónhimnuæðum 23 heilbrigðra einstaklinga var mæld með handvirkum og sjálfvirkum hugbúnaði. Alls voru 46 augnbotnamyndir greindar, eða tvær myndir af öðru auga hvers einstaklings. Parað t próf var notað til að bera forritin saman. 

Niðurstöður: Meðalsúrefnismettun í slagæðlingum var  93,8±3,4% með notkun sjálfvirka hugbúnaðarins en með notkun handvirka hugbúnaðarins mældist hún 90,3±3,8% (p<0.001). Meðalsúrefnismettun í bláæðlingum mældist 62,2±5,9% með sjálfvirka hugbúnaðinum en 58,3±4,7% með þeim handvirka (p<0.001). Staðalfrávik endurtekinna mælinga með sjálfvirkum hugbúnaði var 0,7% fyrir slagæðlinga and 1,5% fyrir bláæðlinga en með handvirkum hugbúnaði var staðalfrávik 1,08% fyrir slagæðlinga og 1,6% fyrir bláæðlinga. 

Ályktanir: Sjálfvirkur hugbúnaður skilaði áreiðanlegum mælingum í prófunum á heilbrigðum einstaklingum. Þetta bendir til þess að nota megi aðferðina til mælinga á fólki með væga vitræna skerðingu og standa þær mælingar yfir. Sjálfvirki hugbúnaðurinn mælir alla punkta í sjónhimnuæðum en notendur handvirka hugbúnaðarins velja þær æðar sem skal mæla en þetta gæti skýrt mun á mældri súrefnismettun milli forrita. 

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.