Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Styrkur fólats í blóði barnshafandi kvenna og almennu þýði kvenna á aldrinum 20-40 ára

Aðalhöfundur: Ingibjörg Gunnarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ásdís Birna Hermannsdóttir, Háskóli Íslands. Ása Valgerður Eiríksdóttir, Háskóli Íslands. Bryndís Eva Birgisdóttir, Háskóli Íslands. Gyða Hrönn Einarsdóttir, Landspítali. Kristín Ólafsdóttir, Háskóli Íslands. Þórhallur Ingi Halldórsson, Háskóli Íslands.

Inngangur: Öllum konum sem geta orðið barnshafandi er ráðlagt að taka 400 µg fólattöflu daglega auk þess að borða fólat ríka fæðu. Ástæðan eru tengsl milli lítillar neyslu á fólati og hættu á skaða í miðtaugakerfi fósturs. Fólatneysla hérlendis hefur verið áætluð í könnunum á mataræði, en upplýsingar um styrk fólats í blóði íslenskra kvenna hafa ekki verið birtar áður.

Efniviður og aðferðir:  Þátttakendur voru annars vegar barnshafandi konur sem mættu í fósturskimun við 11.-14. viku meðgöngu (n=100) og hins vegar konur úr almennu þýði (20-40 ára, n=84). Niðurstöður voru bornar saman við viðmiðunargildi Landspítala (591-1810 nmól/L) og alþjóðleg viðmið um fullnægjandi fólatstyrk í rauðum blóðkornum (906 nmól/L) og fólatskort (<340 nmól/L). Notkun bætiefna var skráð, en liggur einungis fyrir meðal barnshafandi kvenna.

Niðurstöður: Meðalstyrkur fólats í rauðum blóðkornum barnshafandi kvenna var 1961±560 nmól/L og 2247±657 nmól/L í almenna þýðinu. Um helmingur þátttakenda í báðum rannsóknum var með styrk yfir viðmiðumargildum Landspítala (>1810 nmól/L). Tvær mælingar úr almenna þýðinu voru lægri en 906 nmól/L, þar af ein undir 340 nmól/L. Meðal barnshafandi kvenna reyndust þrjár mælingar vera rétt undir 906 nmól/L (á bilinu 685-890 nmól/L), en engin undir 340 nmól/L. Alls tóku 86% barnshafandi kvenna fólat/fólínsýru sem bætiefni daglega.

Ályktanir:  Styrkur fólats í rauðum blóðkornum var hár miðað við alþjóðleg viðmið og einnig í samanburði við erlendar rannsóknir og skortur á fólati virðist sjaldgæfur. Niðurstöðurnar kalla á frekari skoðun á háum fólatstyrk í blóði kvenna á Íslandi.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.