Aðalhöfundur: Martin Ingi Sigurðsson.
Vinnustaður eða stofnun: Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands.
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Guðrún Mist Gunnarsdóttir, Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala. John Whittle, University College, London. Kári Hreinson, Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala. Sigurbergur Kárason, Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala. Sveinn Geir Einarsson, Svæfinga-og gjörgæsludeild Landspítala. Sólveig Helgadóttir, Svæfinga-og gjörgæsludeild háskólasjúkrahússins í Uppsölum, Svíþjóð.
Inngangur: Aukinn hrumleiki (e. Frailty) hefur sterk tengsl við verri útkomur skurðaðgerða. Nýlega var birtur hrumleikakvarði (Hospital frailty risk score, HFRS) þar sem líkur á auknum hrumleika eru metnar miðað við samsetningu sjúkdómsgreininga. Markmið þessa verkefnis var að kanna tengsl áhættu á hrumleika samkvæmt HFRS-kvarða og verri útkoma í hópi eldri aðgerðasjúklinga.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þýðisrannsókn sem tók til allra sjúklinga 65 ára og eldri sem undirgengust sína fyrstu skurðaðgerð á Landspítala milli 2006-2018. Sjúklingarnir voru flokkaðir í lága, meðalháa og háa áhættu á hrumleika með HFRS-kvarða með greiningum frá sjúkrahúsi og heilsugæsli. Tengsl flokkunarinnar og 30-daga dánartíðni, tíðni endurinnlagnar innan 180 daga og sjúkrahúslegu yfir tíu daga var metin.
Niðurstöður: Af 16.793 sjúklingum reyndust 7460 (45%), 7605 (45%) og 1708 (10%) sjúklingar hafa lága, meðalháa og háa áhættu á hrumleika. Þrjátíu daga dánartíðni var 1,4%, 2,9% og 8,3% fyrir sjúklinga með lága, meðalháa og háa áhættu á hrumleika (p<0,001 m.v. lága áhættu). Tíðni langrar sjúkrahúslegu var 9,8%, 15,5% og 26,6% fyrir sjúklinga með lága, meðalháa og háa áhættu á hrumleika (p<0,001 m.v. lága áhættu). Langtíma dánartíðni var hærri hjá einstaklingum með meðalháa (Áhættuhlutfall (ÁH) 1,54; 95% ÖB:1,48-1,61) og háa (ÁH 3,37; 95% ÖB:3,20-3,57) samanborið við lága áhættu (ÁH 1,00) á hrumleika. Áhættuhlutfall endurinnlagnar var sömuleiðis hærra fyrir einstaklinga með meðalháa og háa áhættu á hrumleika.
Ályktanir: Áhættuflokkun hrumleika sem byggir á sjúkdómsgreiningum (HFRS) tengist auknum líkum á skamm-og langtíma fylgikvillum. Mögulega er hægt að áhættuflokka sjúklinga á sjálfvirkan hátt m.t.t. hættu á hrumleika með kvarðanum.