Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Virði breytinga á líkamsþyngdarstuðli: Skipta makar máli?

Höfundar:
Kristjana Baldursdottir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Paul Mcnamee, Edward Norton

Inngangur
Samband lífsánægju og líkamsþyngdar er flókið en mörgum er annt um eigin líkamsþyngd og gera ýmislegt til að ná þeirri þyngd sem þeim finnst ákjósanlegust.

Efniviður og aðferðir
Markmið þessarar rannsóknar er að meta virði þess að vera með óskaþyngdarstuðul (e. Optimal Body Mass Index) sem er sá stuðull sem hámarkar lífsánægju einstaklinga. Notuð er tekjuuppbótaraðferð til að meta þær viðbótartekjur sem þarf til að bæta einstaklingum upp það velferðartap sem fylgir því að vera ekki í sínum óskaþyngdarstuðli. Greiningin byggir á gögnum frá Household, Income and Labour Dynamics in Australia (HILDA). Notuð er aðfallsgreining með slembiáhrifum (e. Random Effects) til að meta bæði virði þess að vera með óskaþyngdastuðul og hvernig virðið breytist með þyngdarstuðli maka.

Niðurstöður
Niðurstöðurnar sýna að metin tekjuuppbót hækkar eftir því sem einstaklingar eru lengra frá metnum óskaþyngdarstuðli. Þó virðist meira virði fyrir konur en karla að vera ekki yfir sínum óskaþyngdarstuðli en meira virði fyrir karla en konur að vera ekki undir óskaþyngdarstuðli sínum. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að óskaþyngdarstuðull einstaklings hækkar með hækkandi þyngdarstuðli maka og öfugt. Metin tekjuuppbót er hæst hjá konum þegar þær sjálfar eru fyrir ofan sinn óskaþyngdarstuðul og makar þeirra eru fyrir neðan sinn en hjá körlum eru hæstu gildin þegar þeir eru fyrir neðan sinn óskaþyngdarstuðul.

Ályktanir
Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægan kynjamun og áhrif maka á virði breytinga á líkamsþyngdastuðli.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.