Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Tvíblind slembidreifð íhlutunarrannsókn – Áhrif trefjaefnisins kítósan á þarmaflóru og heilsufarsþætti mismunandi einstaklinga

Thelma Rún Rúnarsdóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Hildur Thors, Hjördís Harðardóttir, Alexandra M Klonowski, Karla F Corral-Jara, Viggó Þór Marteinsson and Marta Guðjónsdóttir

Inngangur: Undanfarna áratugi hefur rannsóknum á þarmaflóru mannsins farið fjölgandi. Mikill áhugi er á tengslum hennar við heilsu bæði andlega og líkamlega. Ýmis konar góðgerlar og trefjaefni hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á samsetningu og fjölbreytni þarmaflórunnar sem leitt getur til heilsufarslegs ávinnings. Markmið rannsóknarinnar var að skoða í fyrsta sinn áhrif kítósans á þarmaflóru og heilsufarsþætti mismunandi einstaklinga. Efniviður og aðferðir: Sextíu kvenkyns sjálfboðaliðar á aldrinum 26 – 70 ára með BMI á bilinu 19 – 36 kg/m2 tóku inn ýmist kítósan (N=28) eða lyfleysu (N=32) í 12 vikur en viðhéldu að öðru leyti óbreyttum lífstíl á meðferðartímanum. Þátttakendur skiluðu alls fjórum hægðarsýnum, þremur á meðan inntöku stóð og einu sýni tveimur vikum eftir að inntöku lauk. Líkamlegir og andlegir heilsufarsþættir voru mældir á formi blóðprufa og spurningalista auk líkamlegs þreks og styrks með sex mínútna göngurpófi og gripstyrksmælingu. Framkvæmd var 16S rRNA raðgreining á hægðarsýnunum. Tölfræðigreining var unnin í R og Jamovi. Niðurstöður: Marktækar breytingar urðu á samsetningu þarmaflóru í kjölfar inntöku á kítósani á meðan hún hélst óbreytt í lyfleysuhópnum. Lækkun varð á magni Anaerostipes, Blautia, CAG-56, Dorea og Eubacterium hallii group í kjölfar inntöku á kítósani. Ennfremur jókst magn Ruminococcus gnavus group í kítósan hóp eftir íhlutun. Þríglýseríð og fastandi blóðsykur hækkuðu marktækt hjá báðum hópum eftir íhlutun. Báðir hópar bættu sig í gönguprófi og gripstyrk. Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir að trefjaefnið kítósan virðist hafa áhrif á samsetningu þarmaflórunar en virðast ekki hafa áhrif á heilsufarsþætti í þeim hópi kvenna sem var rannsakaður.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.