Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Þróun á kennslumyndefni í sýndarveruleika og reynsla nemenda

Höfundar:
Þorsteinn Jónsson, Birgir Þorgeirsson, Snædís Kristinsdóttir

Inngangur
Aðferðir til kennslu í heilbrigðisvísinum eru fjölmargar og mikilvægt að kanna áhrif og ávinning þeirra. Aukin tæknivæðing býður uppá nýja nálgun í miðlun þekkingar og er vaxandi áhugi á notkun sýndarveruleika í kennslu. Sýndarveruleiki felur í sér tækni sem leyfir þátttakendum á gagnvirkan hátt að komast í tæri við sýndarheim sem endurspeglar raunheima. Rannsóknir á sýndarveruleika í kennslu hafa verið fremur fáar.

Efniviður og aðferð
Hönnuð voru tvö gagnvirk bráðatilfelli og upptekin upp sem 360° kennslumyndefni. Í þeim var þátttakandi hluti af atburðarrásinni. Átta hjúkrunarfræðinemum var boðið að prófa kennslumyndefnið. Annarsvegar með sýndarveruleikagleraugum, hinsvegar á skjá sem hluti af minni hóp. Í kjölfarið svöruðu nemendur spurningalista um reynslu og ávinning kennsluaðferðar. Um var að ræða hentugleikaúrtak og fór rannsóknin fram í hermisetri Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.

Niðurstöður
Þróuð og hönnuð voru kennslumyndefni í kerfisbundnu líkamsmati á bráðveikum sjúklingi og fyrstu viðbrögð í endurlífgun. Niðurstöður á reynslu af kennslumyndefninu sýna að allir þátttakendur voru mjög sammála að gaman hafi verið að prófa sýndarveruleika sem kennsluaðferð (n=8). Þátttakendur voru mjög sammála og sammála því að sýndarveruleiki væri góð leið til að læra, og myndi bæta miklu við hefðbundna kennsluaðferðir. Þá voru þátttakendur mög sammála eða sammála að sýndarveruleiki myndi auka skilning á námsefninu, og væri gagnlegur undirbúningur undir raunveruleg viðfangsefni.

Ályktun
Niðurstöður benda til að kennsluefni í sýndarveruleika bæti við núverandi kennsluaðferðir. Hið sama má segja um gagnvirkt kennsluefni á skjá. Aðgengilegt að hanna kennsluefni í sýndarveruleika. Þörf er á að rannsaka sýndarveruleika sem kennsluaðferð í heilbrigðisvísindum betur með stærra og slembnu úrtaki.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.