Höfundar:
Elsa Ruth Gylfadóttir, Dr. Hulda Hjartardóttir, Dr. Valgerður Lísa Sigurðardóttir
Ljósmæður sem starfa við fæðingar á hátæknisjúkrahúsum hafa farið í gegnum mikla tækniþróun undanfarin ár. Notkun á ómtæki við framgangsmat fæðinga er ný tækni sem vísbendingar eru um að hafi ýmsa kosti fram yfir hefðbundnar innri skoðanir.
Tilgangur er að skoða viðhorf ljósmæðra sem starfa við fæðingar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi til notkunar ómtækja við mat á framgangi fæðinga og að kanna viðhorf þeirra til mögulegrar innleiðingar á tækninni.
Rannsóknin er eigindleg og notað tilgangsúrtak. Þrjú rýnihópaviðtöl, með hálfstöðluðum spurningalista, tekin við 16 ljósmæður Fæðingarvaktar Landspítala í janúar 2022. Efnisgreining var notuð til að flokka niðurstöður í þemu og undirþemu.
Viðhorf ljósmæðra endurspegluðust í eftirtöldum þemum: 1) „Ljósmæðralistin og tæknin“ sem skiptist í a) klíníska nefið og tæknin kallast á, b) ljósmæður eru námsfúsar, og c) að hafa stjórn á innleiðingu. 2) „Kona og barn í öndvegi“ sem skiptist í a) valmöguleikinn skiptir máli, b) öryggið á oddinn, og c) sambandið við konuna.
Ályktun: Ljósmæður styðja tækniþróun sem byggð er á gagnreyndri þekkingu og hefur ávinning fyrir skjólstæðinga þeirra og auka ekki óþarfa inngrip. Þær vilja hafa áhrif á innleiðingu breyttra aðferða og standa vel að henni með velferð skjólstæðinga að leiðarljósi. Ljósmæður telja mat á framgangi fæðinga með ómtæki ekki koma í stað hefðbundinna innri skoðana en telja tæknina jákvæða viðbót. Ómskoðanir við mat á framgangi fæðinga eru góður valkostur fyrir vissa hópa kvenna og gagnlega í ákveðnum tilvikum. Þörf er á frekari rannsóknum til að meta ávinning af notkun ómtækis við framgangsmat í fæðingum.