Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Tengsl ofbeldissögu kvenna við hjarta- og æðasjúkdóma: lýðgrunduð rannsókn

Höfundar:
Sigurbjörg Anna Guðnadóttir, Rebekka Lynch, Arna Hauksdóttir, Edda Björk Þórðardóttir, Gunnar Tómasson, Jóhanna Jakobsdóttir, Thor Aspelund, Unnur Anna Valdimarsdóttir

Inngangur: Hátt hlutfall kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Tengsl slíkra áfalla við hjartaáföll og áhættuþætti hjarta-og æðasjúkdóma hafa ekki verið skoðuð hjá heilli kvenþjóð.

Efniviður og aðferðir: Áfallasaga kvenna er lýðgrunduð langtímarannsókn. Öllum íslenskum konum á aldrinum 18-69 ára var boðin þátttaka og 31.790 konur tóku þátt (30% þátttökuhlutfall). Þessar konur endurspegla þýðið miðað við gögn Hagstofu Íslands með tilliti til aldurs, menntunar, búsetu og tekna. Lífstíðarútsetning fyrir ofbeldi var mæld með Life Events Checklist for DSM-5 (LEC-5). Konurnar svöruðu spurningum um hæð og þyngd og hvort þær hefðu verið greindar af lækni með hjartaáfall, sykursýki týpu 2 eða háþrýsting. Tengsl lífstíðaralgengis (A) ofbeldis við lífstíðaralgengi um hjartaáföll og áhættuþætti hjarta-og æðasjúkdóma voru könnuð og birt sem algengishlutfall (AH) með 95% öryggisbilum.

Niðurstöður: Um 40% kvenna höfðu orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Konur útsettar fyrir ofbeldi voru líklegri til að hafa greint frá greiningum hjartaáfalls (A=1,2%, AH 1,72(1,38–2,14), p<0,01), sykursýki 2 (A=2,9%, AH 1,28(1,11–1,47), p<0,01), vera í offituflokki (A=30,5%, AH 1,12(1,08 – 1,16), p<0,01) en ekki að hafa háþrýstigreiningu (A=21,3%, AH 1,04(0,99 –1,09), p=0,09). Konur sem höfðu orðið fyrir bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi voru enn líklegri til að greina frá ofangreindum útkomum. Aukið algengi hjartaáfalla meðal kvenna með ofbeldissögu var að litlum hluta útskýrt með hefðbundnum áhættuþáttum, þ.e. reykingum, offitu, sykursýki og háþrýstingi. Ályktun: Þessi lýðgrundaða rannsókn á íslenskum konum bendir til tengsla milli lífssögu um ofbeldi og algengi hjartaáfalla og áhættuþátta hjarta-og æðasjúkdóma. Algengi var hæst meðal kvenna með mikla ofbeldissögu.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.