Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Tengsl notkunar ytra oxýtósíns í fæðingu við þróun einhverfu og ADHD barna: Kerfisbundin fræðileg samantekt

Höfundar:
Ragnheiður Ragnarsdóttir, Bryndís Sunna Jóhannesdóttir, Berglind Hálfdánsdóttir

Inngangur: Notkun ytra oxýtósíns í fæðingarþjónustu fer vaxandi á heimsvísu en lyfið er meðal annars notað við framköllun fæðingar og til hríðaörvunar. Hormónið og taugaboðefnið oxýtósín gegnir mikilvægu hlutverki í barneignarferlinu en tilbúið ytra oxýtósín getur dregið úr margþættum jákvæðum áhrifum náttúrulegs innra oxýtósíns. Vísbendingar eru um tengsl á milli notkunar ytra oxýtósíns í fæðingu og þróunar einhverfu og ADHD barna.
Efniviður og aðferðir: Kerfisbundin fræðileg samantekt megindlegra rannsókna. Stuðst var við leiðbeiningar Joanna Briggs stofnunarinnar ásamt PRISMA gátlista. Rannsóknarspurning var mótuð og inntöku- og útilokunarskilyrði skilgreind. Heimildaleit var framkvæmd í gagnasöfnum PubMed, CINAHL, PsycInfo og ProQuest og gerð var afturvirk og framvirk snjóboltaleit úr greinum sem uppfylltu inntökuskilyrði. Matstæki frá Joanna Briggs stofnuninni voru notuð til að gæðameta þær rannsóknir sem uppfylltu inntökuskilyrði. Helstu upplýsingar rannsóknanna voru dregnar fram í flæðitöflu (e. matrix). Niðurstöður rannsóknanna voru samþættar með lóðréttri gagnagreiningu.
Niðurstöður: 12 rannsóknir uppfylltu inntökuskilyrði samantekar. Fimm rannsóknir af átta (62,5%) sýndu einhver tengsl á milli notkunar ytra oxýtósíns í fæðingu og þróun einhverfu barna en tengsl þessi reyndust sterkari hjá drengjum. Tvær af fimm rannsóknum (40%) sýndu einhver tengsl á milli notkunar ytra oxýtósíns í fæðingu og þróun ADHD barna.
Ályktun: Niðurstöður þessar þarf að meta til móts við ávinning af notkun ytra oxýtósíns í fæðingarþjónustu og gefa ástæðu til að endurskoða þá miklu notkun sem er á lyfinu í fæðingarþjónustu hérlendis sem og á erlendri grundu. Mikilvægt er að veita foreldrum fræðslu um möguleg langvarandi áhrif lyfsins á þroska barna til að stuðla að upplýstri ákvarðanatöku.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.