Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Tengsl líkamlegs atgervis og eigin mats á líkamlegri virkni og hreyfingu

Höfundar:
Thelma Rún Rúnarsdóttir, Hildur Thors, Hjördís Harðardóttir, Viggó Þór Marteinsson, Marta Guðjónsdóttir

Inngangur: Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er hreyfingarleysi flokkað sem fjórði helsti áhættuþáttur fyrir heildardauða á heimsvísu. Hreyfing er því mikilvæg sem forvörn og meðferð við sjúkdómum og getur haft gríðarleg áhrif á heilbrigði einstaklinga. Í klíník er gjarnan notast við eigið mat á líkamlegri virkni og hreyfingu til þess að öðlast innsýn í venjubundna hreyfingu sjúklinga. Markmið rannsóknarinnar er að skoða tengsl hlutlægra mælinga á líkamlegu þreki og styrk og huglægra mælinga á líkamlegri virkni og hreyfingu metið með Saltin-Grimby 4 þrepa kvarðanum (SGPALS).
Efniviður og aðferðir: 88 kvenkyns sjálfboðaliðar á aldrinum 26-71 árs (50.4± 11.1) og með líkamsþyngdarstuðul (LÞS) 29.3 ±7.5 kg/m2 tóku þátt í rannsókninni. Líkamlegt þrek og styrkur var mælt með sex mínútna gönguprófi og gripstyrksmælingu. Eigið mat á líkamlegri virkni og hreyfingu var mælt með íslensku útgáfunni af SGPALS 4 þrepa kvarðanum. Gögnum var safnað frá ágúst 2020 til ágúst 2022. Tölfræði var unnin með ANOVA og kí-kvaðrat prófi
Niðurstöður: Niðurstöður sýna að marktækur munur er á hlutlægum mælingum (gripstyrk og 6 mín gönguprófi) milli þrepa SGPALS kvarðans (p<0.05). Þeir sem sem sögðust hreyfa sig mest samkvæmt SGPALS höfðu mesta líkamlega þrekið og styrkinn . Enn fremur sást marktækur munur á LÞS eftir svörun á SGPALS. Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir að huglægt mat fólks á eigin líkamlegri virkni og hreyfingu er réttmætt þar sem hlutlægar mælingar styðja við svörun. SGPALS er því dýrmætt og gagnlegt mælitæki bæði í rannsóknum og klínískri vinnu.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.