Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Staðlaðir sjúklingar í viðtalstækni

Steinunn Ólafsdóttir and Abigail Snook

Bakgrunnur: Staðlaðir sjúklingar (e. standarized patients) hafa í vaxandi mæli verið notaðir í kennslu verðandi heilbrigðisstarfsfólks með það að markmiði að auka færni nemanda við raunverulegar aðstæður. Markmið með okkar verkefni var að þjálfa nemendur á 5. ári í sjúkraþjálfun í samskiptum við skjólstæðinga.

Aðferðir: Leikari var ráðinn til að taka þátt í kennslu um viðtalstækni fyrir 28 nemendur á 5. ári í sjúkraþjálfun. Nemar unnu í pörum og tóku upp myndbandsviðtal sem var skilað inn til námsmats. Leikarinn fékk drög að handriti með upplýsingum um helstu kvilla og persónueinkenni en nemendur fengu takmarkaðri upplýsingar. Nemendum var ætlað að sýna dæmi um áhugahvetjandi samtal, sameiginlega ákvörðunartöku, „kenndu mér” aðferðina (e. teach-back) og ákvörðunarhjálpartæki ásamt því að hafa í huga menningarlegan bakgrunn og heilsulæsi. Nemendur skiluðu ígrundun eftir námskeiðið þar sem þau lýstu reynslu sinni á verkefninu auk þess sem þau svöruðu könnun.

Niðurstöður: Nemendum fannst gagnlegt að hafa óþekktan leikara þar sem það líktist frekar raunveruleikanum en að tala við hvort annað. Nemendur nefndu þó að oft á tíðum hafi leikarinn talað mikið og verið of samvinnuþýður þannig minna reyndi á þau. Af 28 nemendum sögðust 10 vera mjög sammála/sammála því að þau hafi haft gaman af þessu verkefni, en 13 voru ósammála/mjög ósammála þeirri staðhæfingu.

Ályktun: Staðlaðir sjúklingar geta nýst í kennslu til að þjálfa upp hæfni nemanda en mikilvægt er að leiðbeiningar til leikara séu nákvæmar og skýrar. Áhugavert var hversu vel nemendur létu af verkefninu í texta miðað við hversu lítið þau höfðu gaman að því.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.