Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Reynsla hjúkrunardeildarstjóra sem stjórnendur og leiðtogar í heimsfaraldri: Styðjandi og hindrandi þættir

Höfundar:
Lilja María Stefánsdóttir, Sigrún Gunnarsdóttir, Helga Bragadóttir

Inngangur: COVID-19 heimfaraldurinn hefur haft umfangsmikil áhrif á líf og störf margra, ekki síst þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu. Tilgangur þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvað studdi og hvað hindraði störf hjúkrunardeildarstjóra á legudeildum á Íslandi fyrsta árið sem COVID-19 heimsfaraldurinn geisaði.
Efniviður og aðferð: Notast var við eigindlega aðferðafræði. Þátttakendur voru 13 hjúkrunardeildarstjórar á legudeildum á Íslandi, valdir með tilgangsúrtaki og snjóboltaaðferð. Tekin voru hálfstöðluð einstaklingviðtöl og þau greind með þemagreiningu.
Niðurstöður: Greind voru þrjú meginþemu; 1) áskoranir, 2) upplýsingar og 3) samstaða og stuðningur. Hvert þema felur í sér áhrifaþætti tveggja andstæðra póla sem ýmist eru hvati eða hindrun í starfi þátttakenda. Þátttakendur lýstu fyrsta ári heimsfaraldursins sem tíma mikils álags og þreytu, töldu þeir sig vel undirbúna vegna menntunar sinnar og reynslu og lýstu flestir jákvæðri upplifun af reynslu sinni. Upplýsingar voru mikilvægar fyrir störf þeirra og voru upplýsingafundir almannavarna sem haldnir voru reglulega meðan á faraldrinum stóð sérlega gagnlegir. Sumir kváðust hafa fengið of miklar upplýsingar á meðan aðrir lýstu skorti á upplýsingum. Samstaða og stuðningur innan vinnustaðar þátttakenda var áberandi. Hins vegar lýstu þeir skorti á stuðningi frá yfirmönnum.
Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi verið krefjandi verkefni fyrir hjúkrunardeildarstjóra en jafnframt gefandi þegar nægur stuðningur var til staðar. Menntun og reynsla styður hjúkrunardeildarstjóra í starfi og þeir réðu vel við þær áskoranir sem fylgdu heimsfaraldrinum. Að sama skapi þarfnast þeir stuðnings frá næstu yfirmönnum og að tryggt sé að nauðsynlegar upplýsingar séu til staðar þegar á þarf að halda.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.