Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Orku- og próteinþörf og inntaka inniliggjandi sjúklinga eftir útskrift af gjörgæslu

Elsa Katrín Eiríksdóttir

Inngangur: Næringarmeðferðir fyrir alvarlega veika sjúklinga hafa þróast hratt á síðustu árum. Áherslan hefur aðallega verið á bráða fasa veikinda og lítil áhersla verið lögð á bata fasann. Orku- og próteinþörf sjúklingahópsins er því illa skilgreind og upplýsingar um næringarþarfir og inntöku eru lítið þekktar. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa orku- og próteininntöku sjúklinga á almennum deildum, eftir útskrift af gjörgæslu, með þriggja daga fæðuskráningu og bera saman við orku- og próteinþörf þeirra.

Aðferðir: Rannsóknin var framsýn lýsandi rannsókn á 13 sjúklingum sem voru lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítalans. Orkuþörf var reiknuð útfrá meðaltalsútreikningum úr óbeinum efnaskiptamælingum sem framkvæmdar voru á gjörgæslu og ráðleggingum evrópskra samtaka um klíníska næringu (ESPEN). Próteinþörf var reiknuð út frá ráðleggingum frá ESPEN. Orku- og próteininntaka var metin í þrjá samfellda daga með gildismetnu diskamódeli. Undir matarskráninguna féllu máltíðir frá sjúkrahúsinu, allur auka matur og viðbótarnæring.

Niðurstöður: Meðal orkuþörf samkvæmt óbeinni efnaskiptamælingu var 1883 (± 431) kkal/dag. Til samanburðar var meðalorkuþörf samkæmt ESPEN ráðleggingum 2105 (± 304) kkal/dag. Meðal próteinþörf var 101 (± 14.6) grömm/dag. Meðal orkuinntaka var 1512 kkal og 66 grömm prótein á dag (næring um munn og viðbótarnæring), þar af var meðal orkuinntaka um munn 1021 kkal og 44 grömm prótein á dag.

Ályktun: Orku- og próteininntaka var mest hjá sjúklingum sem fengu blöndu af næringu um munn og sondunæringu og minnst hjá sjúklingum sem nærðust eingöngu um munn. Þörf er á frekari rannsóknum til þess að skilja betur næringarþörf sjúklinga eftir gjörgæslulegu til þess að veita sem besta næringarmeðferð.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.