Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Neysla orkudrykkja, svefn,- og fæðuval íslenskra ungmenna

Höfundar:
Arna Ösp Gunnarsdóttir, Björn Jóhannes Hjálmarsson, Erlingur Jóhannesson, Ingibjörg Gunnarsdóttir

Inngangur: Orkudrykkjaneysla getur haft áhrif á svefnmynstur og hefur verið tengd við fæðuval í erlendum rannsóknum. Lítið er vitað um áhrif tímasetningar orkudrykkjaneyslu og tengsl hennar við fæðuval hefur ekki verið kannað hérlendis. Markmiðið var að kanna tíðni og tímasetningu orkudrykkjaneyslu meðal framhaldsskólanema og tengsl neyslunnar við svefn og fæðuval.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru nemendur á átjánda aldursári úr þremur framhaldsskólum (n=171), sem svöruðu spurningalista um svefn, hreyfingu og fæðuval, ásamt tíðni og tímasetningu neyslu orkudrykkja. Hluti hópsins (n=102) samþykkti að bera á sér hröðunarmæli í viku. Gagnasöfnun fór fram á tímabilinu mars-maí 2021.
Niðurstöður: Alls neyttu 57,3% orkudrykkja (62,6% stúlkna og 48,4% drengja, p<0.001). Meðalsvefntími hópsins sem neytti orkudrykkja var styttri á virkum dögum (6klst:36mín m.v. 7klst:6mín, p=0.005), þau fóru seinna að sofa og hærra hlutfall sagðist sofa minna en 6 klst. (40,8% m.v. 26,0%, p<0.001) samanborið við þau sem ekki neyttu orkudrykkja. Heildartíðni neyslu á fæðutegundum sem teljast hluti af næringarríku mataræði (ávextir, grænmeti, mjólkurvörur og fiskur) var marktækt lægri meðal þeirra sem neyttu orkudrykkja (p=0.015) samanborið við þá sem neyttu þeirra ekki, en neysla á gosdrykkjum, kaffi og áfengi var hærri (p<0.05). Heildarsvefntími var á mörkum þess að vera tölfræðilega marktækt styttri þá daga sem orkudrykkja var neytt eftir klukkan þrjú síðdegis (6klst:7mín m.v. 6klst:36mín, p=0.054). Ályktanir: Niðurstöðurnar staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna um að neysla orkudrykkja sé tíð og hafi neikvæð áhrif á svefn. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að fæðuval þess hóps sem neytir orkudrykkja sé lakara en þeirra sem ekki neyta orkudrykkja.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.