Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Munnheilsuvernd, munnheilsa og næringartengd vandamál á íslenskum öldrunarheimilum

Höfundar:
Aðalheiður Svana Sigurðardóttir, Ólöf Guðný Geirsdóttir, Inga B. Árnadóttir, Alfons Ramel

INNGANGUR
Rannsóknir sýna að íbúar á öldrunarheimilum þjást oft af slæmri munnheilsu og vannæringu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða tengsl á milli munnheilsu og næringartengdra vandamála meðal íbúa á íslenskum öldrunarheimilum.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR:
Megindleg þversniðsrannsókn hjá íbúum 67 ára og eldri (N=82) á tveimur öldrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Munnheilsa íbúa var skoðuð og skráð samkvæmt verklagi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þátttakendur svöruðu munnheilsutengdum lífsgæðakvarða (Oral health Impact profile) sem innihélt átta mælingar á næringartengdum vandamálum (0 = engin vandamál til 8 = mikil vandamál).
NIÐURSTÖÐUR:
Alls tóku (N=73) þátt (konur, 61,6%; karlar, 38,4%). Tannátustuðull sem er meðalfjöldi skemmdra, fylltra og tapaðra tanna var um 26, þó töldu 42% þátttakenda að tannheilsa þeirra væri góð. Yfir 40% íbúa var alfarið tannlaus með heilgóma og meðalfjöldi næringartengdra vandamála var 4,8 ± 2,5. Samkvæmt aldurs- og kynleiðréttri aðhvarfsgreiningu var hár tannátustuðull marktækt tengdur tyggingarvandamálum, því að forðast ákveðin matvæli, að þurfa að hætta að borða og því að geta ekki borðað, en ekki tengt breytingu á bragðskyni. Samskonar niðurstaða var hjá þeim sem voru alfarið tannlausir og notuðu heilgóma. Lengd búsetu íbúans á heimilinu (>1 ár) var martækt tengd breytingu á bragðskyni og erfiðleikum við tyggingu, en ekki við þörf fyrir tannlæknaþjónustu, lengd frá síðustu tannlæknaheimsókn eða við næringartengd vandamál.
ÁLYKTANIR:
Munnheilsa íbúa á íslenskum öldrunarheimilum í þessari rannsókn var slæm og mikil þörf er á bættri munnheilsuvernd. Tíðni næringartengdra vandamála sem geta leitt til vannæringar er há og slæm munnheilsa er marktækt tengd við næringartengd vandamál og við lengd búsetu íbúans á heimilinu.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.