Sólveig Axelsdóttir, Jóhanna Gunnarsdóttir, Sveinbjörn Gizurarson and Helga Helgadóttir
Meðgöngueitrun hefur áhrif á 2-8% meðganga og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir bæði móður og barn. Árangursrík skimun og meðferð við sjúkdómnum skortir, en eina lækningin er fæðing fylgju.
Markmið rannsóknarinnar var að mæla styrk PP13 á þriðja þriðjungi meðgöngu og eftir fæðingu hjá konum með meðgöngueitrun samanborið við viðmiðunarhóp, ásamt því að skoða samband PP13 við meðgöngulengd og fæðingarþyngd.
Rannsóknin innihélt 13 konur með meðgöngueitrun og 8 konur í viðmiðunarhópi sem áttu áætlaða gangsetningu eða valkeisara eftir minnst 37 vikna meðgöngu. Blóðsýni voru tekin rétt fyrir fæðingu og 3-5 klukkustundum, 1 degi, 5 og 10 dögum eftir fæðingu. Styrkur PP13 var mældur í sermi með ELISA mótefnamælingu.
Styrkur PP13 var svipaður hjá tilfellum og viðmiðum, en reyndist marktækt hærri hjá viðmiðum 5 dögum eftir fæðingu (p=0,026). Þegar styrkurinn var kannaður meðal þátttakenda sem áttu öll sýnin, sást hækkun á PP13 á 5. degi hjá þremur af fjórum viðmiðum og einnig hjá fjórum af sex tilfellum, þó er hækkunin hjá viðmiðunum minni. Styrkur PP13 mældur 5 dögum eftir fæðingu, reyndist vera í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd, eingöngu meðal viðmiða (r= -0,7; p=0,018).
Rannsóknin leiddi í ljós að lítill munur er á styrk PP13 milli hópa á þriðja þriðjungi meðgöngu og eftir fæðingu. Stærra úrtak þarf til að skilja styrk, útskilnað og samband þessara lífefnavísa rétt fyrir og eftir fæðingu, en mögulegt er að PP13 leynist í öðrum vefjum líkamans en fylgju. Fylgni við meðgöngulengd meðal viðmiða gæti bent til að fæðingarmáti hafi áhrif á styrk PP13 eftir fæðingu.