Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Lífslokameðferð hjá taugasjúklingum á taugalækningadeild: skráning á teiknum, einkennum og meðferðum 3-7 daga fyrir andlát

Guðrún Jónsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Sigurðardóttir, Haukur Hjaltason, Marianne Klinke, Guðný Tryggvadóttir and Helga Jónsdóttir

Inngangur: Það er áskorun fyrir heilbrigðisstarfsfólk að átta sig á yfirvofandi andláti sjúklinga með taugasjúkdóma og að teknar séu viðeigandi ákvarðanir um breytingar á meðferðarmarkmiðum. Rannsókninni var ætlað að lýsa teiknum og einkennum tengdum yfirvofandi andláti, ásamt læknis- og hjúkrunarmeðferðum á síðustu 3-7 dögum lífs með áherslu á framlag hjúkrunarfræðinga til ákvörðunartöku um lífslok.
Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúkraskrám sjúklinga sem létust á taugalækningadeild árin 2011 – 2020. Gögnum um teikn og einkenni um yfirvofandi andlát, ásamt rannsóknum og meðferðum síðustu 3-7 daga lífsins var safnað úr sjúkraskrá með sérhönnuðu gagnasöfnunartæki. Af 271 sjúkraskrám uppfylltu 209 taugasjúklingar inntökuskilyrðin. Lýsandi tölfræði var notuð við greiningu gagnanna.
Niðurstöður: Hjúkrunarfræðingar skráðu versnun á framgangi sjúkdómsins og greindu þörfina á lífslokameðferð í 36% tilfella. Samtöl við aðstandendur (85%) og fjölskyldufundir (93%) voru algengir. Teikn eða einkenni sem bentu til yfirvofandi andláts voru versnun sjúkdóms (96%), meðvitundarleysi eða takmörkuð meðvitund (72%), hreyfingarleysi eða rúmlega (71%), verkir (69%) og andþyngsli (57%). „Meðferðarferli fyrir deyjandi“ var notað í 74% tilvika. Umfangsmikil meðferð var framkvæmd, þar á meðal sogun í öndunarveg (97%) vökvagjöf í æð (70%) og sýklalyf í æð (45%). Sjúklingarnir fengu verkjalyf með eða án ópíóíða (98%) og bensódíazepínlyf (93%).
Ályktanir: Heilbrigðisstarfsmenn áttu með erfitt að átta sig á þörf fyrir og að veita lífslokameðferð hjá sjúklingum með taugasjúkdóma. Bráðameðferð var yfirgnæfandi. Verkjastilling og benzódíazepínlyfjagjöf og fjöldi fjölskyldufunda var í samræmi við leiðbeiningar um lífslokameðferð. Vísbendingar voru um framlag hjúkrunarfræðinga til ákvarðanatöku um lífslokameðferð en skráning um það var ófullnægjandi.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.