Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Langtímaeftirfylgni á reglulegri hreyfingu eftir útskrift úr hreyfiseðli

Höfundar:
Steinunn Olafsdottir, Auður Ólafsdóttir, Thelma Björk Theodórsdóttir

Inngangur: Hreyfiseðill er viðurkennd aðferð sem felur í sér að skrifa uppá hreyfingu sem meðferð við sjúkdómum. Markmið hans er að auka áhugahvöt einstaklinga til hreyfingar og fá þá til þess að samþætta hreyfingu við daglegt líf. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort einstaklingar haldi áfram að stunda reglubundna hreyfingu eftir að þeir hafa útskrifast úr hreyfiseðlinum og jafnframt að greina hindranir fyrir áframhaldandi hreyfingu.

Efniviður og aðferðir: Könnun var send til 974 einstaklinga sem höfðu fengið hreyfiseðil og útskrifast fyrir allt að 18 mánuðum. Spurt var um hreyfingu, upplifun af hreyfiseðli og hversu lengi einstaklingur hélt áfram að stunda reglubundna hreyfingu eftir útskrift. Einnig var spurt um hindranir fyrir hreyfingu og þær flokkaðar í þrjá flokka: Skortur á áhugahvöt, vanheilsa og aðstæður. Stuðst var við lýsandi tölfræði og við samanburð voru notuð kí-kvaðrat próf og T-próf. Svarhlutfall var 32,3%.

Niðurstöður: Meirihluti þátttakenda (62%) stundaði enn reglubundna hreyfingu eftir útskrift úr hreyfiseðilsúrræðinu og höfðu þátttakendur aukið hreyfingu sína frá því þeir byrjuðu í úrræðinu (p<0,001). Helstu stöku hindranir fyrir reglulegri hreyfingu voru líkamleg vanlíðan (20,8%) og tímaskortur (20,4%). Skortur á áhugahvöt (41%) var helsta hindrunin þegar hindrunum var skipti í þrjá flokka. Ályktanir: Hreyfiseðill virkar til að auka hreyfingu. Mikilvægt er að leita leiða til að styðja enn frekar við áhugahvöt einstaklinga og þurfa fagaðilar að vera meðvitaðir um að einstaklingar þurfa einstaklingsmiðaða hvatningu til hreyfingar sem tekur mið af líðan einstaklingsins hverju sinni.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.