Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Grunnhimnubreytingar í heilaæðum sjúklinga með arfgenga heilablæðingu og Alzheimer með CAA

Höfundar:
Hjalti Karl Hafsteinsson, Helgi J Ísaksson, Hákon Hákonarson, Ásbjörg Ósk Snorradóttir

Inngangur
Arfgeng heilablæðing (AH) er séríslenskur sjúkdómur sem heyrir undir cerebral amyloid angiopathy (CAA), hóp fjölbreyttra sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að mýlildi safnast fyrir í heilaæðum miðtaugakerfisins. Meingerð AH er tilkomin bæði vegna aukinna utanfrumuefna í grunnhimnu æða og útfellingar cystatin C . Truflun á innanæða flæði (e. perivascular drainage) er talið eiga þátt í að Aβ falli út í grunnhimnu í miðlagi æða, sama tilgáta á við um cystatin C. Sýnt hefur verið fram á að lyfið N-acetylcystein (NAC) hægir á útfellingu cystatin C mýlildis í húð arfbera með AH og geti temprað boðferla sem leiða til framleiðslu utanfrumuefna. Markmið rannóknar var að skoða hvort svipuð meingerð sé í æðaveggjum sjúklinga sem létust úr AH vs Alzheimer með CAA.

Efniviður og aðferðir
Gerðar voru mótefnalitanir á heilasýnum sjúklinga sem létust úr AH, Alzheimer (Aβ-CAA) og viðmiðum. Sýnin voru mótefnalituð gegn cystatin C, Aβ, kollagen IV, fibronectin, nidogen, Smad 2/3, WNT-1 og CD34. Gerðar voru magngreiningar með ImageJ og tölfræðiúrvinnsla með Graphpad.

Niðurstöður
Þykknun á grunnhimnu með aukinni uppsöfnun á kollagen IV og fibronectin fannst bæði í arfgengri heilablæðingu og Alzheimer með CAA. Frumur í æðaveggjum sem framleiða kollagen IV og fibronectin voru jákvæðar fyrir vimentin, Smad 2/3 og WNT-1.

Ályktun
Mikil þykknun sást í grunnhimnu, sérstaklega í miðlagi æða þar sem uppsöfnun mýlildispróteina byrjar í báðum sjúkdómum og veldur röskun á innanæða flæði. NAC gæti því verið meðferðarmöguleiki fyrir CAA sjúkdóma almennt, bæði AH og Alzheimer sjúkdóm, með því að tempra ferla sem leiða til aukinnar grunnhimnuþykktar

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.